Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   lau 21. desember 2024 23:20
Ívan Guðjón Baldursson
Fjórar úr liði River Plate í fangelsi eftir leik í æfingamóti
Mynd: Reuters
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Kvennalið River Plate er statt í Brasilíu þessa stundina þar sem það tekur þátt í fótboltamóti. River Plate er eitt af þremur liðum í mótinu sem eru ekki frá Brasilíu en ferðalagið þeirra hefur tekið afar óvænta stefnu eftir að fjórir leikmenn liðsins voru fangelsaðir.

River Plate var búið að sækja sér tvö stig úr tveimur fyrstu leikjum mótsins og spilaði úrslitaleik um toppsæti riðilsins við Gremio, þar sem sigur hefði nægt fyrir River Plate til að tryggja sér toppsætið.

River Plate tók forystuna snemma leiks en Gremio jafnaði og skömmu síðar fór leikurinn í uppnám. Fyrst var hin 18 ára gamla Juana Cangaro rekin af velli með beint rautt spjald á 38. mínútu og fylgdu fimm liðsfélagar hennar þremur mínútum síðar. Leikmenn argentínska liðsins fengu rauð spjöld fyrir almenn mótmæli og kynþáttafordóma, þar sem þær léku eftir öpum eftir jöfnunarmark Gremio og á meðan verið var að reka þær útaf.

Rasismi er ólöglegur í Brasilíu og því voru þeir leikmenn sem sýndu fordómafulla hegðun handteknir og færðir í gæsluvarðhald eftir leikinn á föstudaginn. Dómari staðfesti svo gæsluvarðhaldið í þingsal á laugardeginum, sem þýðir að leikmennirnir gætu þurft að dúsa í fangelsi í Sao Paulo þar til réttað verður yfir þeim.

Umræddir leikmenn eru Candela Díaz, Camila Duarte og Milagros Diaz, sem voru handteknar ásamt Juana Cangaro sem fékk fyrsta rauða spjaldið.

Leikmenn River Plate eru skelkaðir af viðbrögðunum sem mættu þeim í Brasilíu og er argentínska félagið að gera allt í sínu valdi til að leysa leikmenn sína úr fangelsi. River Plate segist geta ábyrgst það að leikmenn liðsins muni ekki láta sig hverfa þegar réttarhöld í málinu hefjast.

Vandræðin hófust þegar Candela Diaz, leikmaður River Plate, lék apa fyrir framan hörundsdökkan boltasæki. Þessir tilburðir fóru fyrir brjóstið á leikmönnum Gremio sem komu boltasækinum til varnar. Eftir átökin voru sex leikmenn River Plate reknir af velli í heildina og því þurfti að hætta leik þó að staðan væri 1-1 og rúmlega helmingur eftir af venjulegum leiktíma. Lokatölur 3-0 fyrir Gremio útaf rauðum spjöldum.

Leikmenn og stjórnendur Gremio voru þó langt frá því að vera sáttir með hegðun leikmanna River Plate og kröfðust þess að lögregla skærist í leikinn, sem hún gerði.
Athugasemdir
banner
banner