Tveimur síðustu leikjum dagsins er lokið í spænska boltanum þar sem Atlético Madrid vann frábæran endurkomusigur í Barcelona.
Liðin mættust í toppslag spænsku deildarinnar og tók Pedri forystuna fyrir heimamenn í Barcelona eftir samspil við góðvin sinn Gavi.
Börsungar voru sterkari aðilinn allan leikinn en þeim tókst ekki að skora fleiri mörk framhjá Jan Oblak sem átti stórleik. Raphinha átti skot í slá og klúðraði Robert Lewandowski ótrúlegu dauðafæri, en gestirnir frá Madríd nýttu færin sín.
Staðan var 1-0 fyrir Börsunga í leikhlé og skoraði Atlético jöfnunarmark á 60. mínútu. Rodrigo De Paul var þar á ferðinni þar sem hann skoraði með afar snyrtilegu skoti utan vítateigs.
Heimamenn sóttu stíft en þeim tókst ekki að taka forystuna á ný og hélst staðan jöfn allt þar til undir lok uppbótartímans, þegar Atlético tókst að stela stigunum þremur með marki eftir vel útfærða skyndisókn.
Börsungar lagði allt í sóknarleikinn í leit sinni að sigurmarki en fékk það í bakið þegar Atlético geystist upp í skyndisókn. Nahuel Molina fékk boltann á hægri kanti og var ekki lengi að koma honum fyrir á norska risann Alexander Sörloth sem skoraði sitt áttunda mark á deildartímabilinu. Atletico tekur toppsæti spænsku deildarinnar með þessum sigri og trónir þar með 41 stig eftir 18 umferðir - þremur stigum meira heldur en Barcelona og leik til góða.
Fyrr í dag vann Athletic Bilbao góðan sigur á útivelli gegn Osasuna, þar sem Lucas Torro tók forystuna fyrir heimamenn en Gorka Guruzeta jafnaði eftir stoðsendingu frá Inaki Williams.
Alex Berenguer gerði svo sigurmarkið í síðari hálfleik til að tryggja Athletic þrjú stig í toppbaráttunni. Athletic er í fjórða sæti eftir þennan sigur, aðeins fimm stigum á eftir toppliði Atlético Madrid.
Barcelona 1 - 2 Atletico Madrid
1-0 Pedri ('30 )
1-1 Rodrigo De Paul ('60 )
1-2 Alexander Sorloth ('96)
Osasuna 1 - 2 Athletic Bilbao
1-0 Lucas Torro ('25 )
1-1 Gorka Guruzeta ('31 )
1-2 Alejandro Berenguer ('74 )
Athugasemdir