Argentínumenn ætla að taka hart á kynþáttaníði í fótboltanum og til marks um það voru fjórir leikmenn kvennaliðs River Plate handteknir um helgina og látnir dúsa í fangaklefa fyrir kynþáttaníð í miðjum leik.
Atvikið átti sér stað á föstudagskvöldið þegar River Plate mætti Gremio í brasilíska bikarnum. Leikur var stöðvaður í fyrri hálfleik þegar Candela Diaz leikmaður River Plate framkallaði apahljóð í átt að boltastrák.
Hún var handtekin auk þriggja liðsfélaga hennar. Lögmaður leikmannana sagði að þeim hafi verið ögrað og hafi brugðist svona við. Hún vill meina að brasilíska dómskerfið sé að nýta þetta mál til að senda skýr skilaboð.
Eftir að Diaz gerði apahljóðin á föstudaginn gengu leikmenn Gremio af velli í mótmælaskyni. Sex leikmenn River Plate fengu að líta rauða spjaldið og því þurfti að flauta leikinn af þar sem ekki voru nógu margir leikmenn inná samkvæmt knattspyrnulögunum.
Staðan var 1 - 1 þegar atvikið átti sér stað en Gremio hefur verið úrskurðaður sigur og fer því í úrslitaleik mótsins síðar í dag. River Plate hefur verið bannað frá því að taka þátt í bikarkeppninni næstu tvö ár.
Thaissan Passos þjálfari Gremio sagði að leikmenn River Plate hafi áður kallað sína leikmenn apa og fór fram á að tekið sé á kynþáttafordómum.
River Plate fordæmdi líka fordómana í yfirlýsingu og sagðist munu grípa til aðgerða innan félagsins til að útrýma fordómum.
Athugasemdir