Síðustu Íslendingaleikjum kvöldsins var að ljúka víðsvegar um Evrópu og gekk ekki sérlega vel hjá Íslendingaliðunum.
Í Þýskalandi gerði Preussen Munster markalaust jafntefli við Ulm í fallbaráttuslag í næstefstu deild.
Hólmbert Aron Friðjónsson leiddi sóknarlínuna og spilaði fyrstu 77 mínúturnar í liði Preussen Munster, sem er með 16 stig eftir 17 umferðir - tveimur stigum fyrir ofan Ulm í fallsæti.
Í þriðju efstu deild á Ítalíu fékk Kristófer Ingi Jónsson að spila síðustu 20 mínúturnar í tapi Triestina á útivelli gegn Arzignano. Triestina er í fallsæti, með 13 stig eftir 20 umferðir.
Í efstu deild í Belgíu var Patrik Sigurður Gunnarsson á varamannabekknum er fyrrum lærisveinar Freys Alexanderssonar í liði Kortrijk gerðu 2-2 jafntefli á útivelli gegn botnliði Beerschot í fallbaráttuslag.
Heracles og Groningen skildu þá jöfn 1-1 í efstu deild hollenska boltans en hætta þurfti leik eftir 80 mínútur. Brynjólfur Andersen Willumsson lék allan leikinn í liði Groningen, sem er fjórum stigum fyrir ofan fallsæti með 16 stig eftir 16 umferðir.
Að lokum var Elías Már Ómarsson í byrjunarliði NAC Breda sem tapaði gegn Go Ahead Eagles í hollenska boltanum. Breda er í baráttu um umspilssæti fyrir Sambandsdeildina, með 22 stig úr 17 umferðum.
Preussen Munster 0 - 0 Ulm
Arzignano 3 - 0 Triestina
G.A. Eagles 2 - 1 NAC Breda
Beerschot 2 - 2 Kortrijk
Heracles 1 - 1 Groningen
Athugasemdir