Ange Postecoglou er spenntur fyrir stórleik Tottenham gegn Liverpool sem fer fram í dag.
Postecoglou fór víðan völl á fréttamannafundi í gær og var meðal annars spurður út í sóknartaktík Tottenham og hvort hann hygðist breyta henni í framtíðinni.
Tottenham hefur verið að spila gríðarlega mikinn sóknarbolta á tímabilinu en ekki gengið nógu vel í stigasöfnun. Síðustu tveir leikir liðsins voru þó sigrar gegn Southampton og Manchester United, en í leiknum gegn Man Utd var Tottenham næstum því búið að missa niður þriggja marka forystu.
„Ég hef þjálfað fótboltalið í 26 ár og mér líður eins og ég eigi meiri virðingu skilið. Þetta er ekki bara ég sem finn fyrir þessu, það eru margir aðrir þjálfarar í fótboltaheiminum sem skilja ekkert í þessu virðingarleysi sem okkur er sýnt oft á tíðum," sagði Postecoglou.
„Ég hef séð þetta gerast fyrir marga öfluga þjálfara eins og Unai (Emery, fyrrum þjálfara Arsenal) og Nuno (Espirito Santo, fyrrum þjálfara Tottenham). Það getur verið erfiðara að stýra góðu fótboltaliði heldur en að vera forsætisráðherra. Pressan er gríðarleg og fólk beitir svo mikilli skammtíma hugsun, það er enginn að velta því fyrir sér hvað gæti verið best fyrir félagið ef litið er til næstu fimm ára frekar en fimm mánaða."
Tottenham er óvænt í neðri hluta ensku úrvalsdeildarinnar en liðið er þó með frábæra markatölu. Aðeins topp þrjú liðin í deildinni, Liverpool, Chelsea og Arsenal, eru með betri markatölu heldur en Tottenham og það munar aðeins einu marki á.
„Ég skil vel að ekki allir geta verið hrifnir af leikstílnum sem ég læt Tottenham spila. Ég skil að fólk hefur mismunandi skoðanir á þessu og það er eðlilegt."
Athugasemdir