Gomes gríðarlega eftirsóttur - Liverpool og Man Utd með í kappinu um Guéhi - Liverpool missir af Gordon og skoðar Adeyemi - Barca vill losna við De...
banner
   þri 25. júní 2024 19:22
Ívan Guðjón Baldursson
Koeman ósáttur: Hörmuleg frammistaða - Áttum skilið að tapa
Mynd: EPA
Ronald Koeman var afar ósáttur með spilamennsku sinna manna eftir 3-2 tap Hollands gegn Austurríki í lokaumferð riðlakeppni Evrópumótsins.

Hollendingar komast upp úr riðlinum en enda í þriðja sæti og munu því mæta erfiðum andstæðingum í 16-liða úrslitum.

„Þetta var hörmuleg frammistaða hjá okkur í dag eftir fínan leik gegn Frökkum um daginn. Leikmenn klúðruðu ýmsum undirstöðuatriðum fótboltans eins og að elta manninn sinn... maður verður að elta leikmanninn sinn en við vorum ekki nógu duglegir í því í dag," sagði Koeman eftir tapið.

„Við gerðum heilan haug af mistökum í þessum leik og vorum heppnir að fá ekki fleiri mörk á okkur. Við vorum ekki nógu aggressívir og töpuðum boltanum á slæmum stöðum. Við vorum virkilega slakir."

Austurríkismenn þurftu að taka forystuna í þrígang til að sigra þessa viðureign þar sem Hollendingum tókst að jafna tvisvar.

„Við vorum sérstaklega lélegir í byrjun leiks en skánuðum er tók að líða á leikinn. Við gerðum samt mikið af mistökum og þeir refsuðu okkur fyrir þau í seinni hálfleik. Við áttum ekki skilið neitt annað en tap hér í dag."

Óljóst er hvaða liði Holland mætir í 16-liða úrslitum, en ljóst er að það verður sigurliðið úr einhverjum riðli.

„Við vissum fyrir leikinn að ef við myndum enda í þriðja sæti þá fengum við stórþjóð í næsta leik. Núna verðum við bara að bíða og sjá hvað gerist."

Ef heppnin er með Hollendingum mæta þeir sigurþjóðinni úr E-riðli, þar sem öll fjögur lið riðilsins eru jöfn fyrir lokaumferðina.
Athugasemdir
banner
banner