Guehi vill fara til Liverpool - Viðræður við Gordon ganga illa - Man Utd skoðar stjóra
banner
   fös 27. september 2024 17:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Velskur blaðamaður: Af hverju getur Freyr það ekki líka?
Freyr Alexandersson, þjálfari Kortrijk í Belgíu.
Freyr Alexandersson, þjálfari Kortrijk í Belgíu.
Mynd: Kortrijk
Aaron Ramsey er á meðal leikmanna Cardiff. Liðið er núna á botninum í næst efstu deild Englands.
Aaron Ramsey er á meðal leikmanna Cardiff. Liðið er núna á botninum í næst efstu deild Englands.
Mynd: Getty Images
Vincent Tan er umdeildur á meðal stuðningsmanna Cardiff. Hann er líka eigandi Kortrijk og þekkir þannig Frey.
Vincent Tan er umdeildur á meðal stuðningsmanna Cardiff. Hann er líka eigandi Kortrijk og þekkir þannig Frey.
Mynd: Getty Images
Freyr verður áfram þjálfari Kortrijk núna en það verður spennandi að sjá hvað gerist hjá honum í framtíðinni.
Freyr verður áfram þjálfari Kortrijk núna en það verður spennandi að sjá hvað gerist hjá honum í framtíðinni.
Mynd: Kortrijk
Freyr Alexandersson hefur verið mikið í fréttum síðustu vikuna þar sem hann var orðaður við Cardiff sem leikur í næst efstu deild Englands. Cardiff er í leit að nýjum stjóra eftir að Urol Bulut var rekinn frá félaginu.

Svo fóru að berast lygasögur í belgískum fjölmiðlum um að Freyr hefði logið að leikmannahópnum sínum til að fara í viðræður við Cardiff. Freyr svaraði sjálfur fyrir það á samfélagsmiðlum og sagði í dag að fréttirnar hefðu sært sig mikið.

Freyr tekur ekki við Cardiff núna og verður hann áfram stjóri Kortrijk í Belgíu þar sem hann hefur náð flottum árangri. Ástæðan fyrir því að hann er orðaður við Cardiff er sú að félagið er sama eiganda og Kortrijk, Vincent Tan, og það er því ekki útilokað að hann fari til Wales í framtíðinni.

Fótbolti.net ræddi við Glen Williams, fréttamann Wales Online, í dag og spurði hann út í Frey og stöðuna hjá Cardiff sem er á botni Championship-deildarinnar.

„Það var líklega rétt ákvörðun að reka Bulut á þessum tímapunkti. Hann var reyna að innleiða leikstíl sem hentaði ekki og hann missti aðalvopn sitt í föstum leikatriðum frá síðasta tímabili. Þetta er versta byrjun Cardiff í deildarkeppni í 94 ár og það er erfitt að færa rök fyrir því að Bulut hafi átt að fá lengri tíma til að snúa þessu við. Það voru ekki margir stuðningsmenn sem kvörtuðu þegar tíðindin bárust," segir Williams við Fótbolta.net.

„Það er útlit fyrir það að bráðabirgðaþjálfarinn Omer Riza muni stýra liðinu í næstu þremur leikjum, og svo kemur landsleikjahlé. Á þeim tíma ætlar stjórn félagsins að setja saman lista af mögulegum þjálfurum sem á að ræða við og svo verður þetta ferli tekið enn lengra. Við erum enn mjög snemma í ráðningarferlinu, sú er tilfinningin."

Viðbrögðin ekki stórkostleg
Freyr var snemma í vikunni einn líklegasti kosturinn að mati veðbanka en, hann er það ekki lengur eftir að hann og Kortrijk gáfu út yfirlýsingu þar sem fram kom að hann yrði áfram.

Hvernig voru viðbrögðin hjá stuðningsmönnum Cardiff þegar nafn Freys kom inn í umræðuna?

„Viðbrögðin voru ekki stórkostleg, ef ég á að vera hreinskilinn," segir Williams.

„Ég held að sumum hafi fundist hann 'latur' valmöguleiki af hálfu félagsins þar sem hann stýrir systurfélaginu, Kortrijk, sem er með sama eiganda. Sumir voru líka ekki hrifnir af því sem hann hefur gert til þessa - það sé ekki nægilega mikið - jafnvel þó svo að hann hafi náð flottum árangri í Belgíu og í Danmörku. En sannleikurinn er sá að stjórar sem eru ekki með stórkostlegan feril hafa komið í Championship og staðið sig vel. Af hverju getur Freyr ekki gert það líka?"

Vincent Tan, eigandi Cardiff og Kortrijk, er mjög umdeildur á meðal stuðningsmanna Cardiff. Hann hefur lengi átt félagið og það ekki gengið sérlega vel á þeim tíma. Freyr er með tengingu við Cardiff út af Tan og það rífur hann ekki upp í áliti hjá stuðningsmönnum velska félagsins.

„Það hjálpar honum ekki með stuðningsmennina en á hinn bóginn, þá hjálpar það honum þegar kemur að stjórninni," segir Williams en er möguleiki á því að við sjáum Frey taka við Cardiff í framtíðinni?

„Ég myndi ekki útiloka það að hann stýri Cardiff einhvern tímann. Samband Cardiff við Kortrijk hefur aldrei verið sterkara en núna. Ryotaro Tsunoda, Isaak Davies, Sheyi Ojo og Roko Simic hafa allir verið lánaðir til Kortrijk á síðustu tveimur tímabilum og samstarfið hefur gengið vel. Hvort það eigi eftir að ganga svo langt að félögin skipti á þjálfurum, ég á eftir að sjá það gerast. En hann er ekki inn í myndinni núna," segir Williams.

Eru milljón kílómetrum frá því
Cardiff er félag sem vill vera í ensku úrvalsdeildinni en núna er liðið á botninum í næst efstu deild og staðan ekki góð.

„Félagaskiptaglugginn var undir pari og fótboltinn hefur bara ekki verið nógu góður hingað til. Það vantaði hraða í liðið og Cardiff tókst ekki að leysa það á markaðnum, og sóknarlínan var ekki styrkt nægilega mikið heldur. Fyrir vikið hafa þeir aðeins skorað eitt mark í sex leikjum sem er hörmulegt."

Það þarf mikið að breytast hjá félaginu.

„Markmiðið hjá Cardiff virðist alltaf vera að komast aftur upp í ensku úrvalsdeildina en þeir eru milljón kílómetrum frá því núna. Á þessu tímabili verður þetta að snúast um stöðugleika og að komast af fallsvæðinu. Að enda um miðja deild væri mjög jákvætt núna. Með framtíðina? Tja, nema félagið fái inn meiri fótboltaþekkingu inn í stjórnina eða þá að yfirmaður fótboltamála sé ráðinn til að koma inn með skýra stefnu, þá get ég ekki séð að úrvalsdeildarfótbolti verði spilaður í velsku höfuðborginni í náinni framtíð," sagði Williams að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner