Pep Guardiola hefur svarað Gabriel, varnarmanni Arsenal, fullum hálsi eftir leik Man City gegn Arsenal á dögunum.
Leiknum lauk með 2-2 jafntefli en John Stones jafnaði metin á lokasekúndum leiksins. Í kjölfarið kastaði Erling Haaland boltanum í Gabriel.
Varnarmaðurinn hafði ekki miklar áhyggjur af þessum gjörningi hjá norska framherjanum.
„Þetta er hluti af leiknum, þeir voru ánægðir að skora á síðustu mínútunni. Þeir voru á heimavelli svo það er þeirra verkefni að vinna leikinn en okkar lið gerði mjög vel til að koma í veg fyrir það. Þetta er orusta, stríð svo það er eðlilegt að ögra í fótbolta, það er hluti af leiknum. Þetta er búið og nú bíðum við eftir þeim á okkar heimavelli," sagði Gabriel eftir leikinn.
Guardiola var spurður út í þessi ummæli á blaðamannafundi fyrir leik City gegn Newcastle á St. James' Park í dag.
„Gabriel orðaði þetta fullkomlega eftir leikinn, þetta er stríð, við erum hérna til að ögra mótherjanum. Hvað getur maður gert? Þú ögrar mér, ég er þá mættur. Viltu stríð? Þá færðu stríð," sagði Guardiola.