Freyr Alexandersson, þjálfari Kortrijk í Belgíu, var verulega ósáttur með umfjöllun belgískra fjölmiðla í vikunni sem sökuðu Frey um að hafa logið að leikmannahópi Kortrijk, sagst vera veikur en hefði í raun ferðast og verið í viðræðum um stjórastarfið hjá Cardiff í Wales.
Freyr svaraði fyrir sig á X í vikunni og félagið sendi einnig frá sér yfirlýsingu.
Freyr svaraði fyrir sig á X í vikunni og félagið sendi einnig frá sér yfirlýsingu.
Á fréttamannafundi í dag fór hann aðeins yfir málin. Viðstaddir á fundinum voru nokkrir ungir nemendur sem eru að læra blaðamennsku. Freyr hóf fundinn á því að fara yfir málin með þeim.
„Fyrir ykkar feril, hafið það í huga að þið kannið og skoðið svo aftur sögusagnir áður en þið birtir þær."
Freyr endurtók sömu orð við þá fjölmiðla sem fjölluðu um hann í vikunni. Stjórn Kortrijk vissi að Freysi væri heima vegna veikinda og fréttaflutningur tengdur honum var rangur og ósanngjarn.
„Þetta særði mig mjög mikið. Þegar þú vinnur saman, eins og við gerum hér með blaðamönnum, þá gerirðu það á grundvelli heiðarleika og trausts. Ef þú ert að segja frá fréttum skaltu athuga þær. En það hafði enginn samband við mig. Ég fullvissa ykkur um að ef þið hafið samband við mig þá mun ég ekki ljúga. Ég veit að allir gera mistök í starfi sínu, en ef það reynist raunin þá ættirðu líka að geta sagt fyrirgefðu," er haft eftir Frey á heimasíðu Kortrijk.
Þar kemur fram að blaðamennirnir tveir sem fluttu fréttirnar af Frey í vikunni hefðu beðist innilega afsökunar á röngum fréttaflutningi og með því sé þeim kafla lokið.
Athugasemdir