Gomes gríðarlega eftirsóttur - Liverpool og Man Utd með í kappinu um Guéhi - Liverpool missir af Gordon og skoðar Adeyemi - Barca vill losna við De...
   lau 28. september 2024 16:21
Ívan Guðjón Baldursson
England: Arsenal vann í uppbótartíma - Palmer með fernu
Fyrsti sigur Everton
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Arsenal tók á móti Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í dag og leiddi 2-0 eftir þægilegan fyrri hálfleik.

Gestirnir frá Leicester náðu þó að jafna metin í síðari hálfleik og varði Mads Hermansen hverja marktilraunina fætur annarri frá ógnarsterku liði Arsenal sem tókst að opna vörn Leicester í gríð og erg.

Það virtist allt stefna í jafntefli þegar sjö mínútum var bætt við í uppbótartíma og þyngdist sóknarþungi Arsenal enn frekar. Boltinn rataði þó í netið eftir hornspyrnu á 94. mínútu þar sem Belginn smávaxni Leandro Trossard skoraði.

Leikurinn hélt áfram og reyndu gestirnir frá Leicester að jafna, en fengu í staðinn mark í andlitið eftir skyndisókn. Lokatölur urðu 4-2 og var Trossard atkvæðamestur með tvennu á meðan Gabriel Martinelli skoraði og lagði upp. Bakvörðurinn James Justin skoraði bæði mörk Leicester í tapinu.

Arsenal er búið að jafna Englandsmeistara Manchester City á stigum á toppi deildarinnar, þar sem bæði lið eru taplaus og eiga 14 stig eftir 6 umferðir. Nýliðar Leicester eiga 3 stig og eru enn án sigurs.

Cole Palmer var þá hetjan er Chelsea lagði Brighton að velli. Lokatölur þar urðu 4-2 og voru öll mörkin skoruð í fyrri hálfleik.

Robert Sánchez markvörður Chelsea gerði tvö klaufaleg mistök til að gefa Brighton mörkin, en Palmer refsaði með fernu. Eitt marka Palmer var sérstaklega glæsilegt þar sem hann skoraði beint úr aukaspyrnu af löngu færi.

Palmer hefði hæglega getað skorað fleiri mörk, þar sem hann klúðraði tveimur dauðafærum, átti skot í stöng og þá var einnig mark dæmt af honum.

Í viðureign Brentford gegn West Ham tók Bryan Mbeumo forystuna á fyrstu mínútu fyrir Brentford en Tomas Soucek jafnaði í síðari hálfleik svo lokatölur urðu 1-1.

Dwight McNeil var þá hetjan í langþráðum sigri Everton þar sem hann skoraði bæði mörkin í 2-1 sigri gegn Crystal Palace.

Þetta var fyrsti sigur Everton á deildartímabilinu og eru lærisveinar Sean Dyche komnir með 4 stig eftir 6 fyrstu umferðirnar. Palace er enn án sigurs og aðeins með þrjú stig.

Raúl Jimenez gerði að lokum eina mark leiksins úr vítaspyrnu er Fulham lagði Nottingham Forest á útivelli.

Arsenal 4 - 2 Leicester City
1-0 Gabriel Martinelli ('20 )
2-0 Leandro Trossard ('45 )
2-1 James Justin ('47 )
2-2 James Justin ('63 )
3-2 Kai Havertz ('90 )
4-2 Wilfred Ndidi ('90 , sjálfsmark)

Brentford 1 - 1 West Ham
1-0 Bryan Mbeumo ('1 )
1-1 Tomas Soucek ('54 )

Chelsea 4 - 2 Brighton
0-1 Georginio Rutter ('7 )
1-1 Cole Palmer ('21 )
2-1 Cole Palmer ('28 , víti)
3-1 Cole Palmer ('31 )
3-2 Carlos Baleba ('34 )
4-2 Cole Palmer ('41 )

Everton 2 - 1 Crystal Palace
0-1 Marc Guehi ('11 )
1-1 Dwight McNeil ('47 )
2-1 Dwight McNeil ('54 )

Nott. Forest 0 - 1 Fulham
0-1 Raul Jimenez ('51 , víti)
Athugasemdir
banner
banner
banner