Gomes gríðarlega eftirsóttur - Liverpool og Man Utd með í kappinu um Guéhi - Liverpool missir af Gordon og skoðar Adeyemi - Barca vill losna við De...
   lau 28. september 2024 13:26
Ívan Guðjón Baldursson
England: Gordon skoraði jöfnunarmarkið gegn Man City
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Newcastle 1 - 1 Man City
0-1 Josko Gvardiol ('35)
1-1 Anthony Gordon ('57, víti)

Newcastle United tók á móti Manchester City í fyrsta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni og úr varð hörkuslagur sem einkenndist af mikilli baráttu.

Það ríkti þokkalegt jafnræði með liðunum og tóku gestirnir frá Manchester forystuna á 35. mínútu, þegar varnarmaðurinn Josko Gvardiol var búinn að lauma sér inn á vítateiginn hjá Newcastle. Gvardiol fékk einfalda sendingu í lappirnar frá Jack Grealish og kláraði laglega með að senda boltann laust í fjærhornið.

Síðari hálfleikurinn var áfram nokkuð jafn þar sem lítið var um góð færi en Anthony Gordon skoraði jöfnunarmark heimamanna á 57. mínútu með marki úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur.

Við endursýningar sást að Ederson markvörður Man City snerti Gordon aðeins lítillega og er mögulegt að þessum dóm hefði verið snúið við á síðustu leiktíð, en það var ekki tilfellið í dag. Vítaspyrnudómurinn fékk að standa þar sem talið er að það hafi einhver snerting átt sér stað, hversu lítil sem hún var.

Man City var sterkari aðilinn á lokakaflanum en tókst ekki að skora framhjá Nick Pope. Lokatölur 1-1 og er þetta annar jafnteflisleikurinn hjá Man City í röð, en liðið er á toppi deildarinnar með 14 stig eftir 6 umferðir.

Newcastle er í fimmta sæti, með 11 stig.

Þetta var fyrsti leikur úrvalsdeildartímabilsins sem Erling Haaland tekst ekki að skora mark.
Athugasemdir
banner
banner
banner