Gomes gríðarlega eftirsóttur - Liverpool og Man Utd með í kappinu um Guéhi - Liverpool missir af Gordon og skoðar Adeyemi - Barca vill losna við De...
banner
   lau 28. september 2024 19:27
Brynjar Ingi Erluson
Annar deildarsigurinn í röð hjá Jóa Berg
Jóhann Berg byrjar ágætlega í Sádi-Arabíu
Jóhann Berg byrjar ágætlega í Sádi-Arabíu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hans í Al Orobah unnu annan deildarsigur sinn í röð er liðið lagði Damac að velli, 1-0, í sádi-arabísku deildinni í dag.

Landsliðsmaðurinn hefur farið ágætlega af stað með liði sínu, en hann var í byrjunarliðinu í dag.

Spænski vængmaðurinn Cristian Tello skoraði eina mark leiksins í uppbótartíma fyrri hálfleiks og þar við sat.

Jóhann Berg fór af velli þegar lítið var eftir af leiknum en Al Orobah er með 7 stig eftir fimm leiki og situr í 9. sæti deildarinnar.

Hjörtur Hermannsson byrjaði í hjarta varnarinnar hjá Carrarese sem gerði markalaust jafntefli við Reggiana í ítölsku B-deildinni. Hjörtur fór af velli þegar tæpur hálftími var eftir af leiknum en Carrarese er með fjögur stig á botninum eftir sjö umferðir.

Cole Campbell lék þá í 2-1 tapi varaliðs Borussia Dortmund gegn 1860 München í þýsku C-deildinni. Hann lék síðustu tuttugu mínútur leiksins, en Dortmund er í 13. sæti með 8 stig eftir átta leiki.

Anton Logi Lúðvíksson kom inn á undir lok leiks í 1-0 tapi Haugesund gegn Brann í norsku úrvalsdeildinni. Haugesund er í 13. sæti með 23 stig.

Valgeir Valgeirsson spilaði allan leikinn í mögnuðum 1-0 sigri á toppbaráttuliði Landskrona í sænsku B-deildinni. Örebro hefur ekki tapað í síðustu þremur leikjum og er nú í 9. sæti með 31 stig og í góðri stöðu um að halda sér uppi.
Athugasemdir
banner
banner