Gomes gríðarlega eftirsóttur - Liverpool og Man Utd með í kappinu um Guéhi - Liverpool missir af Gordon og skoðar Adeyemi - Barca vill losna við De...
   lau 28. september 2024 18:31
Brynjar Ingi Erluson
England: Liverpool á toppinn
Liverpool er á toppnum
Liverpool er á toppnum
Mynd: Getty Images
Wolves 1 - 2 Liverpool
0-1 Ibrahima Konate ('45 )
1-1 Rayan Ait Nouri ('56 )
1-2 Mohamed Salah ('61 , víti)

Arne Slot og lærisveinar hans í Liverpool eru komnir á toppinn í ensku úrvalsdeildinni eftir 2-1 sigur liðsins á Wolves í Molineux-leikvanginum í dag.

Wolves, sem hafði farið í gegnum sautján leiki án þess að halda hreinu, byrjaði leikinn nokkuð vel og var ekki að sjá að þetta væri lið sem væri með aðeins eitt stig á botninum.

Liverpool vann sig betur inn í leikinn þegar á leið og átti Dominik Szoboszlai dauðafæri undir lok hálfleiksins er hann fékk boltann í teignum eftir fyrirgjöf Andy Robertson en Sam Johnstone varði meistaralega. Szoboszlai hefði samt líklegast átt að gera betur.

Seint í uppbótartíma tóku gestirnir í Liverpool forystuna þegar Ibrahima Konate stangaði fyrirgjöf Diogo Jota í netið. Fyrsta deildarmark Konate á tímabilinu, en hann hefur komið að þremur mörkum í síðustu þremur leikjum í öllum keppnum með þeim rauðu.

Snemma í síðari hálfleiknum jöfnuðu heimamenn eftir svakalegan klaufaskap þeirra Alisson Becker og Konate. Wolves tapaði boltanum og elti Konate hann óáreittur inn í teiginn. Frakkinn var að búast við því að Alisson kæmi út til að handsama boltann, en það gerði hann ekki og gaf það því Jörgen Strand Larsen færi á því að vinna boltann af Konate og koma honum fyrir markið á Rayan Ait-Nouri sem skoraði.

Agalegur misskilningur sem kom þó ekki að sök. Nokkrum mínútum síðar féll Jota í teignum eftir viðskipti sín við Nelson Semedo og skoraði Mohamed Salah sigurmarkið af punktinum.

Liverpool hélt síðan örugglega út og hafði 2-1 sigur. Þetta þýðir að Liverpool er komið á toppinn með 15 stig eftir sex leiki en Wolves áfram á botninum með 1 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner