Gomes gríðarlega eftirsóttur - Liverpool og Man Utd með í kappinu um Guéhi - Liverpool missir af Gordon og skoðar Adeyemi - Barca vill losna við De...
   lau 28. september 2024 17:00
Ívan Guðjón Baldursson
Willum skoraði í frábærum endurkomusigri
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var nóg um að vera í evrópska boltanum í dag þar sem nokkrir Íslendingar komu við sögu með sínum félagsliðum. Willum Þór Willumsson var í byrjunarliði Birmingham og skoraði fyrsta mark liðsins í mögnuðum endurkomusigri gegn Peterborough.

Birmingham lenti tveimur mörkum undir á heimavelli en Willum minnkaði muninn á 24. mínútu og lék svo allan leikinn.

Chris Davies þjálfari gerði tvöfalda skiptingu í leikhlé og tókst Birmingham að skora tvö mörk í síðari hálfleik til að snúa stöðunni við og sigra viðureignina til að halda yfirráðum sínum á toppi League One deildarinnar. Þar er Birmingham með 19 stig eftir 7 fyrstu umferðirnar.

Í League Two deildinni kom Jason Daði Svanþórsson inn af bekknum í flottum endurkomusigri Grimsby. Staðan var 2-1 fyrir Carlisle þegar Jasoni var skipt inn á 79. mínútu en liðsfélögum hans tókst að jafna metin og gera sigurmark á lokakaflanum.

Grimsby er um miðja deild, með 12 stig eftir 8 umferðir. Þetta var annar sigur liðsins í röð.

Daníel Freyr Kristjánsson, 19 ára, lék þá allan leikinn í 3-0 sigri Fredericia í næstefstu deild danska boltans og lagði upp fyrsta mark leiksins.

Fredericia er í öðru sæti deildarinnar og því í harðri baráttu um sæti í efstu deild á næstu leiktíð. Daníel Freyr er mikilvægur hlekkur í liði Fredericia og hjá unglingalandsliðum Íslands en hann er uppalinn hjá Stjörnunni.

Mikael Anderson var á sínum stað í byrjunarliði AGF sem gerði 2-2 jafntefli gegn Randers í efstu deild í Danmörku þrátt fyrir að hafa sýnt yfirburði í leiknum. Århus er í öðru sæti deildarinnar eftir jafnteflið, með 19 stig eftir 10 umferðir. Þetta var þriðja jafnteflið í röð hjá liðinu.

Í sænska boltanum lék Stefan Alexander Ljubicic allan leikinn með Skovde AIK sem tapaði fyrir Sundsvall í næstefstu deild. Liðin áttust við í fallbaráttuslag og kemur þetta tap sér afar illa fyrir Skovde, sem virðist stefna niður í C-deildina.

Skovde er núna fimm stigum frá öruggu sæti í deildinni þegar fimm umferðir eru eftir af leiktíðinni.

Í hollenska boltanum var Rúnar Þór Sigurgeirsson á sínum stað í byrjunarliði Willem II en tókst ekki að koma í veg fyrir tap á heimavelli gegn stórveldi PSV Eindhoven.

Rúnar er fastamaður í byrjunarliði Willem, sem er komið með 8 stig eftir 7 fyrstu umferðirnar á nýju tímabili í efstu deild.

Að lokum fóru þrír leikir fram í næstefstu deild norska boltans. Þar var Davíð Snær Jóhannsson í byrjunarliði Ålesund sem tapaði á heimavelli gegn Mjondalen í mikilvægum fallbaráttuslag.

Það eru aðeins fimm umferðir eftir af norska deildartímabilinu og eru Álasund og Mjondalen núna jöfn í fallbaráttunni, með 25 stig eftir 25 leiki. Liðin eru einu stigi frá öruggu sæti í deild.

Óskar Borgþórsson kom inn af bekknum í 2-0 tapi Sogndal gegn Stabæk, en þetta var sjöundi tapleikur liðsins í röð. Sogndal virðist vera búið að missa af umspilssæti til að keppast um sæti í efstu deild og er fimm stigum frá fallsæti.

Kongsvinger gerði þá jafntefli í toppbaráttunni, en Róbert Orri Þorkelsson var ekki með vegna meiðsla. Kongsvinger er í harðri baráttu um sæti í efstu deild og náði jafntefli gegn toppliði Vålerenga í dag.

Birmingham 3 - 2 Peterborough
0-1 R. Jones ('4)
0-2 E. Fernandez ('16)
1-2 Willum Þór Willumsson ('24)
2-2 O. Wallin ('49, sjálfsmark)
3-2 K. Bielik ('66)

Carlisle 2 - 3 Grimsby

AGF 2 - 2 Randers

Fredericia 3 - 0 B.93

Skovde AIK 0 - 2 Sundsvall

Willem II 0 - 2 PSV

Aalesund 0 - 1 Mjondalen

Stabæk 2 - 0 Sogndal

Kongsvinger 2 - 2 Valerenga

Athugasemdir
banner
banner