Sumrinu í Bestu deild kvenna fer senn að ljúka og var þremur leikjum úr næstsíðustu umferð að ljúka rétt í þessu.
Selfoss lagði þar stórveldi Breiðabliks að velli og eiga Blikar þar með hættu á að missa annað sætið til Stjörnunnar sem á leik til góða. Annað sætið gefur þátttökurétt í forkeppni Meistaradeildarinnar og því til mikils að vinna.
Miranda Nild og Bergrós Ásgeirsdóttir skoruðu mörk Selfyssinga í 2-0 sigri. Liðið er í efri hluta deildarinnar með 28 stig eftir 17 umferðir á meðan Breiðablik er með 33 stig í öðru sæti.
Blikar voru sterkari aðilinn stærsta hluta leiksins á Selfossi en fundu enga leið framhjá skipulagðri varnarlínu og Tiffany Sornpao sem stóð vaktina afar vel á milli stanganna.
Selfoss 2 - 0 Breiðablik
1-0 Miranda Nild ('32)
2-0 Bergrós Ásgeirsdóttir ('73)
Þróttur rúllaði þá yfir löngu fallið botnlið KR og voru heimakonur komnar í þriggja marka forystu eftir stundarfjórðung af leiknum.
Þróttur hélt áfram að sækja og voru óheppnar að bæta ekki fleiri mörkum við fyrir leikhlé. Í seinni hálfleik virtust gestirnir vakna aðeins til lífsins en fóru illa með dauðafæri til að minnka muninn. Þess í stað skoraði Íris Dögg Guðmundsdóttir markvörður Þróttar fjórða markið úr vítaspyrnu.
Brynja Rán Knudsen setti að lokum fimmta markið og auðveldur sigur Þróttar staðreynd.
Þróttur R. 5 - 0 KR
1-0 Sæunn Björnsdóttir ('5)
2-0 Jelena Tinna Kujundzic ('8)
3-0 Danielle Julia Marcano ('15)
4-0 Íris Dögg Gunnarsdóttir ('77, víti)
5-0 Brynja Rán Knudsen ('90)
Að lokum hafði ÍBV betur í Keflavík. Ameera Abdella Hussen og Viktorija Zaicikova komu Eyjakonum yfir með stuttu millibili undir lok fyrri hálfleiks.
Keflavík átti ekki góðan leik en náði völdum á vellinum um miðbik síðari hálfleiks og minnkaði Aníta Lind Daníelsdóttir muninn á 72. mínútu.
Meira var ekki skorað og niðurstaðan 1-2 sigur ÍBV sem er áfram um miðja deild. Keflavík er búið að bjarga sér frá falli og hefur því þriðja tímabil sitt í röð í efstu deild á næsta ári.
Keflavík 1 - 2 ÍBV
0-1 Ameera Abdella Hussen ('40)
0-2 Viktorija Zaicikova ('41)
1-2 Anita Lind Daníelsdóttir ('72)