Enski dómarinn Bobby Madley verður á flautunni er Brentford mætir Wolves í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar um helgina en þetta verður fyrsti leikur hans í deildinni í fjögur ár.
Madley hætti að dæma á hæsta stigi enska boltans í ágúst árið 2018 eftir að myndband fór í dreifingu þar sem hann sést gera grín að hreyfihömluðum manni.
Dómarinn átti í erjum við vin sinn sem síðar hótaði að leka myndbandinu til yfirmanna hans og stóð hann við þau orð sem var síðan til þess að hann hætti að dæma í efstu deild.
Madley flutti til Noregs og dæmdi þar í neðri deildunum áður en hann sneri aftur til Englands fyrir tveimur árum. Hann hefur dæmt í neðri deildunum síðustu tvö ár og meðal annars verið á flautunni í tíu leikjum í B-deildinni en mun nú snúa aftur í ensku úrvalsdeildina.
Hann er skráður á leik Brentford og Wolves á laugardag og verður það fyrsti úrvalsdeildarleikur hans síðan 2018. Hann á samtals 91 leik í efstu deild.
Athugasemdir