Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   þri 25. október 2022 20:15
Brynjar Ingi Erluson
Erfitt kvöld hjá Íslendingunum - „Versti leikmaður FCK í fyrri hálfleiknum"
Ísak Bergmann og Hákon Arnar
Ísak Bergmann og Hákon Arnar
Mynd: Getty Images
Hákon í leiknum gegn Sevilla
Hákon í leiknum gegn Sevilla
Mynd: EPA
Íslenski landsliðsmaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson átti ekki sinn besta leik í treyju FCK í 3-0 tapinu gegn Sevilla í Meistaradeildinni í kvöld en dönsku miðlarnir Bold og Tipsbladet gáfu leikmönnum FCK einkunnir eftir leikinn.

Ísak og Hákon Arnar Haraldsson voru báðir í byrjunarliði FCK í kvöld og náði nú liðið að skapa sér nokkur ágætis færi í leiknum til að komast í forystu.

Hákon fékk meðal annars eitt þeirra og þá átti Viktor Claesson skot í stöng áður en Sevilla tók forystuna. Sevilla bætti við tveimur undir lokin til að tryggja sigurinn.

Bold og Tipsbladet skrifa um frammistöðu leikmanna FCK í leiknum en Ísak fær slaka dóma hjá báðum miðlum, þó sérstaklega hjá Tipsbladet.

„Það var erfitt að fylgjast með unga Íslendingnum í fyrri hálfleiknum, þar sem hann var versti leikmaður FCK. Hann mætti ofjörlum sínum. Það vantaði tímasetningar sem orsakaði feilsendingar og rangar ákvarðanatökur. Það versta var svo undir lok fyrri hálfleiks þegar hann sendi boltann frá sér þegar FCK var að keyra í lofandi skyndisókn," segir í lýsingu Tipsbladet, en hann fær einn bolta af sex mögulegum fyrir frammistöðuna.

Hákon Arnar fær þrjá bolta af sex mögulegum. Hann kom sér í nokkur góð færi en misnotaði þau.

„Miðverðir Sevilla voru líkamlega mun sterkari en Hákon en hann lét það ekki á sig fá. Hann fékk fyrsta færið eftir fínt skot við víateiginn og var svo nálægt því að koma liðinu yfir eftir klukkutímaleik er hann var sendur í djúpið. Hann fékk síðan að hlaupa frjáls áður en hann klúðraði og stuttu síðar skoraði Sevilla. Þessi færi sem hann brenndi af voru dýrkeypt."

Báðir leikmennirnir fá 5 hjá Bold . Orri Steinn Óskarsson spilaði ekki nóg til að fá einkunn frá miðlunum.

FCK á ekki lengur möguleika á að komast upp úr riðlinum í Meistaradeildinni og þá er það ljóst að liðið getur ekki náð 3. sætinu og komst í úrslitakeppni Evrópudeildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner