Pep Guardiola, stjóri Manchester City, segir að liðið þurfi að bæta sig þegar það kemur að vítaspyrnum en Riyad Mahrez klikkaði á punktinum annan leikinn í röð er liðið gerði markalaust jafntefli við Borussia Dortmund í Meistaradeildinni í kvöld.
Kamil Grabara varði frá Mahrez í síðustu umferð er Man City gerði markalaust jafntefli við FCK á Parken og þá fékk hann annað tækifæri í kvöld gegn Dortmund.
Í þetta sinn varði Gregor Kobel frá honum og þurfti Man City að sætta sig við stig. Þrátt fyrir það vann Man City riðilinn en Guardiola segir að liðið verði að bæta þetta.
„Við gerðum ágætlega í seinni hálfleiknum en í fyrri hálfleiknum fengum við á okkur nokkrar skyndisóknir. Þeir eru svo hraðir. Við þurftum að þjást sem lið því leikurinn á laugardag þreytti okkur mikið."
„Þetta er það sem við vildum, að taka efsta sæti riðilsins og við verðum í 16-liða úrslitum og það er gott. Dortmund vildi ekki pressa hátt þannig við þurftum aðeins að breyta pressunni okkar. Við vorum í vandræðum vinstra megin í fyrri hálfleik. Það var greinilega þannig að þeim fannst jafntefli henta vel og greinilega var það líka fyrir okkur."
Erling Braut Haaland og Joao Cancelo fóru af velli í hálfleik en Haaland var slappur.
„Erling var með smá hita fyrir leikinn og Joao fékk spark í fótinn, þess vegna breytti ég."
Vítaspyrnuklúðrið er áhyggjuefni fyrir Guardiola.
„Við sjáum til hvað gerist. Auðvitað er þetta vandamál. Við höfum klúðrað 24 eða 25 vítaspyrnum, flest í Meistaradeildinni og það er of mikið."
„Ég dáist að hugrekkinu að taka víti en þetta er vandamál og við verðum að bæta þetta. Það eru þessi litlu atriði sem skipta máli í þessari keppni. Á síðasta tímabili skoraði hann mikið á mikilvægum augnablikum, meðal annars þegar við komumst í undanúrslitin," sagði Guardiola í lokin.
Athugasemdir