Real Madrid vill Enzo og Huijsen - Liverpool, Arsenal og Man Utd hafa áhuga á Gibbs-White - Sane orðaður við Liverpool
   þri 25. október 2022 19:01
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Chelsea í 16-liða úrslit - Íslendingarnir í FCK töpuðu á Spáni
Kai Havertz skaut Chelsea áfram
Kai Havertz skaut Chelsea áfram
Mynd: EPA
Hákon Arnar og félagar í FCK eiga ekki möguleika á að komast áfram
Hákon Arnar og félagar í FCK eiga ekki möguleika á að komast áfram
Mynd: EPA
Chelsea er komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa unnið Salzburg, 2-1, í Austurríki í kvöld. Íslendingarnir í danska liðinu FCK eru úr leik eftir 3-0 tap fyrir Sevilla á Spáni.

Enska liðið var ógnandi í byrjun leiks og náði að skapa sér nokkur ágætis færi.

Mateo Kovacic kom Chelsea yfir á 23. mínútu og það með stórglæsilegu marki rétt fyrir utan teig. Boltinn barst til hans við vítateigslínuna og skaut hann í fyrsta með vinstri fæti og fór boltinn efst í hægra hornið. Glæsilegt mark í alla staði.

Chelsea hefði hæglega getað bætt við fleiri mörkum í fyrri hálfleiknum en Philipp Köhn, markvörður Salzburg, var að eiga stórleik og kom í veg fyrir að enska liðið færi með þægilega forystu inn í hálfleikinn.

Þegar tæpar þrjár mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum jafnaði Salzburg. Junior Adamu gerði það eftir fyrirgjöf Maxmilian Wöber og staðan 1-1.

Stuttu síðar bjargaði Adamu á línu eftir að Jorginho skallaði boltann í átt að marki. Chelsea var í leit að sigurmarki og það kom tíu mínútum síðar. Christian Pulisic lék sér með boltann, með þrjár varnarmenn í sér áður en hann potaði boltanum til Kai Havertz sem var kominn í ágætis skotstöðu fyirr utan teig. Hann lagði boltann fyrir sig og smurði hann í slá og inn.

Salzburg setti mikinn kraft í að finna jöfnunarmarkið eftir það og bjargaði Thiago Silva meðal annars á línu eftir horn en jöfnunarmarkið kom aldrei og lokatölur 2-1 fyrir Chelsea sem er í efsta sæti F-riðils og komið í 16-liða úrslitin.

Danska liðið FCK er þá úr leik í Meistaradeildinni og á ekki lengur möguleika á að komast áfram. Hákon Arnar Haraldsson og Ísak Bergmann Jóhannesson voru báðir í byrjunarliði FCK í kvöld, en danska liðið fékk svo sannarlega færin til að skora.

Hákon Arnar átti fínasta skot sem Marko Dmitrovic varði og þá átti Viktor Claesson skot í stöng í upphafi síðari hálfleiks áður en Youssef En-Nesyri braut ísinn á 61. mínútu fyrir Sevilla.

Kevin Diks fékk fullkomið tækifæri til að jafna á 82. mínútu en skalli hans fór í slá. Nokkrum mínútum síðar tvöfaldaði Isco forystu Sevilla með laglegu skoti áður en Gabriel Montiel gulltryggði sigur spænska liðsins.

Sevilla á enn möguleika á að komast áfram í 16-liða úrslit en liðið þarf að vonast til þess að Manchester City hafi betur gegn Borussia Dortmund í kvöld. FCK er á meðan í 4. sætinu og á ekki lengur möguleika á að komast áfram og mun þá ekki fara í úrslitakeppni Evrópudeildarinnar.

Sevilla er í 3. sæti með 5 stig en FCK með 2 stig. Ísak Bergmann fór af velli á 62. mínútu og Hákon tíu mínútum síðar. Orri Steinn Óskarsson kom inná sem varamaður á 81. mínútu leiksins.

Úrslit og markaskorarar:

F-riðill:

Salzburg 1 - 2 Chelsea
0-1 Mateo Kovacic ('23 )
1-1 Chukwubuike Adamu ('49 )
1-2 Kai Havertz ('64 )

G-riðill:

Sevilla 3 - 0 FC Kobenhavn
1-0 Youssef En-Nesyri ('61 )
2-0 Alarcon Isco ('88 )
3-0 Gonzalo Montiel ('90 )
Rautt spjald: Davit Khocholava, FC Kobenhavn ('90)
Athugasemdir
banner
banner
banner