Argentínski snillingurinn Lionel Messi skoraði tvö og lagði upp tvö í 7-2 sigri Paris Saint-Germain á Maccabi Haifa í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. PSG og Benfica fara áfram í 16-liða úrslit en Juventus situr eftir með sárt ennið.
Milan færðist nær 16-liða úrslitunum með því að vinna Dinamo Zagreb, 4-0, í Króatíu. Matteo Gabbia kom Milan yfir undir lok fyrri hálfleiks með skalla eftir aukaspyrnu Sandro Tonali.
Rafael Leao tvöfaldaði forystu Milan í upphafi síðari hálfleiks áður en Olivier Giroud gerði þriðja markið úr vítaspyrnu tíu mínútum síðar. Robert Ljubicic, leikmaður Zagreb, varð svo fyrir því óláni að koma boltanum í eigið net tuttugu mínútum fyrir leikslok og þar við sat.
Milan er í 2. sæti E-riðils með 7 stig, einu stigi meira en Salzburg, en þessi lið eigast við í lokaumferðinni.
RB Leipzig vann óvæntan, 3-2, sigur á Real Madrid í F-riðli. Josko Gvardiol og Christopher Nkunku komu liðinu í 2-0 á fyrstu átján mínútunum áður en Vinicius Junior minnkaði muninn undir lok fyrri hálfleiks.
Timo Werner skoraði þriðja markið þegar tæpar tíu mínútur voru eftir áður en Rodrygo klóraði í bakkann fyrir Madrídinga með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Þessi sigur var gríðarlega sterkur fyrir Leipzig sem er í 2. sæti F-riðils með 9 stig, þremur stigum meira en Shakhtar sem gerði 1-1 jafntefli við Celtic.
Leipzig og Shakhtar mætast í lokaumferðinni og dugir Leipzig stig úr þeirri viðureign. Ef Shakhtar vinnur þann leik fer liðið áfram.
Borussia Dortmund og Manchester City gerðu markalaust jafntefli í G-riðli.
Gregor Kobel, markvörður Dortmund, átti stórleik og varði nokkur góð færi frá Man City. Riyad Mahrez fiskaði vítaspyrnu á 57. mínútu leiksins og tók spyrnuna sjálfur en Kobel sá við honum í markinu. Þetta er annar leikurinn í röð sem Mahrez klúðrar af vítapunktinum.
Þetta jafntefli þýðir það að Dortmund er komið í 16-liða úrslit og því ljóst að Sevilla fer í Evrópudeildina.
Það var svo heldur betur markaveisla í H-riðlinum er Paris Saint-Germain og Benfica tryggðu sig í 16-liða úrslitin.
PSG vann Maccabi Haifa, 7-2, í París þar sem Lionel Messi bauð til veislu. Hann skoraði fyrsta markið á 19. mínútu áður en Kylian Mbappe bætti við öðru
Neymar bætti við þriðja markinu eftir stoðsendingu frá Messi áður en gestirnir náðu að koma boltanum í netið. Messi gerði annað mark sitt áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks. Abdoulaye Seck gerði annað mark sitt fyrir Maccabi strax í byrjun síðari hálfleiks en Mbappe svaraði með fimmta marki PSG tæpum fimmtán mínútum síðar.
Þegar sex mínútur voru eftir lagði Messi upp annað mark sitt í leiknum og í þetta sinn fyrir Carlos Soler. Messi með magnaðan leik fyrir PSG og lokatölur 7-2. PSG er með 11 stig í efsta sæti riðilsins en Benfica fer með liðinu í 16-liða úrslit eftir að hafa unnið Juventus, 4-3, í spennandi leik.
Skelfileg frammistaða Juventus í Meistaradeildinni á þessu tímabili kórónuð. Antonio Silva kom Benfica yfir en Moise Keana jafnaði fyrir Juventus.
Joao Mario skoraði úr vítaspyrnu á 28. mínútu og kom Benfica aftur yfir áður en Rafa Silva skoraði tvö mörk til viðbótar. Arkadiusz Milik og Weston McKennie skoruðu tvö mörk á tveimur mínútum en lengra komst Juventus ekki og lokatölur 4-3.
Úrslit og markaskorarar:
E-riðill:
Dinamo Zagreb 0 - 4 Milan
0-1 Matteo Gabbia ('39 )
0-2 Rafael Leao ('49 )
0-3 Olivier Giroud ('59 , víti)
0-4 Robert Ljubicic ('69 , sjálfsmark)
F-riðill:
Celtic 1 - 1 Shakhtar D
1-0 Georgios Giakoumakis ('34 )
1-1 Mykhailo Mudryk ('58 )
RB Leipzig 3 - 1 Real Madrid
1-0 Josko Gvardiol ('13 )
2-0 Christopher Nkunku ('18 )
2-1 Vinicius Junior ('44 )
3-1 Timo Werner ('81 )
3-2 Rodrygo ('90, víti )
G-riðill:
Borussia D. 0 - 0 Manchester City
0-0 Riyad Mahrez ('58 , Misnotað víti)
H-riðill:
Paris Saint Germain 7 - 2 Maccabi Haifa
1-0 Lionel Andres Messi ('19 )
2-0 Kylian Mbappe ('32 )
3-0 Neymar ('35 )
3-1 Abdoulaye Seck ('38 )
4-1 Lionel Andres Messi ('44 )
4-2 Abdoulaye Seck ('50 )
5-2 Kylian Mbappe ('64 )
6-2 Shon Goldberg ('67 , sjálfsmark)
7-2 Carlos Soler ('84 )
Benfica 4 - 3 Juventus
1-0 Antonio Silva ('17 )
1-1 Moise Kean ('21 )
2-1 Joao Mario ('28 , víti)
3-1 Rafa Silva ('35 )
4-1 Rafa Silva ('50 )
4-2 Arkadiusz Milik ('77 )
4-3 Weston McKennie ('79 )
Athugasemdir