Stjepan Tomas, stjóri Sheriff frá Moldóvu, sagði upp störfum í morgun en það eru aðeins tveir dagar í leik gegn Manchester United í Evrópueildinni.
Tomas er 46 ára Króati en uppsögn hans kemur í kjölfarið á 1-0 tapi gegn FC Petrocub á sunnudag. Það var fyrsta deildartap Sheriff á tímabilinu en liðið er enn með sex stiga forystu.
Þrátt fyrir það ákvað Tomas að segja upp, eftir aðeins fjögurra mánaða starf.
„Svo virðist sem leikmenn hafi verið að hugsa um leikinn í Manchester. Það var engin einbeiting. Það voru mín mistök," sagði Tomas.
United vann 2-0 gegn Sheriff í fyrri viðureign liðanna sem fram fór í september. United er í öðru sæti riðilsins, þremur stigum á eftir Real Sociedad sem hefur unnið alla fjóra leiki sína. United er öruggt með að minnsta kosti annað sæti riðilsins með stigi á fimmtudag. Annað sætið gefur umspilssæti.
Athugasemdir