Gomes gríðarlega eftirsóttur - Liverpool og Man Utd með í kappinu um Guéhi - Liverpool missir af Gordon og skoðar Adeyemi - Barca vill losna við De...
banner
   mið 26. júní 2024 12:34
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fékk undanþágu að fara til Englands en valdi Leverkusen
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
„Það var mjög fyndið að við vorum byrjaðar að 'ranka' bekkina á öllum útivöllum. Þetta var alveg komið þangað," sagði landsliðskonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í hlaðvarpsþættinum Chess After Dark en hún er að fara að taka sitt annað tímabil á láni hjá Bayer Leverkusen.

Karólína er samningsbundin stórveldinu Bayern München en hún sat mikið þar á bekknum áður en hún var lánuð til Leverkusen. Þar fékk hún stórt tækifæri á síðustu leiktíð og var einn öflugasti leikmaður þýsku deildarinnar.

„Ég kalla bara fund og spyr hvort ég megi fara á láni. Ég veit að þau hafa mikla trú á mér og þau græða líka á því að ég fái að spila. Ég tók góðan tíma í að velja lið," sagði Karólína en fleiri félög og fleiri lönd komu til greina.

„Mig langaði mjög mikið til Englands en var búin að fara meidd þannig að ég var ekki með nóg af punktum. Það er eitthvað út af Brexit. Þú þarft að vera með ákveðið marga leiki í topp fimm deildunum eða landsleiki. Ég var búin að vera meidd þannig ég spilaði ekki með landsliðinu og var ekki með nóg af punktum fyrir England."

„Við fengum undanþágu að fara til Englands. Það var West Ham, ég get alveg sagt það. Þeir voru ekki með þjálfara á þessum tíma. Ég átti samtal við Leverkusen og þeir heilluðu mig mjög mikið. Ég ákvað að fara þangað."

Karólína fékk traustið hjá Leverkusen og leið vel þar. Hún ætlar að taka annað tímabil þar og sjá svo hvað gerist.

„Ég var orðin vel hungruð að spila og sýna mig í Bundesligunni," segir landsliðskonan.

„Leverkusen voru mjög ánægðir að fá mig aftur, hvort sem það var kaup eða lán. Ég vildi vera áfram hjá Bayern. Það er draumur hjá mér að fá að spila þar, fá alvöru tækifæri. Mér fannst það vanta, að fá leik eftir leik. Ég fékk aldrei tvo byrjunarliðsleiki í röð. Ég fæ núna reynslu og verð mjög klár þegar ég kem til Bayern."


Athugasemdir
banner