Gomes gríðarlega eftirsóttur - Liverpool og Man Utd með í kappinu um Guéhi - Liverpool missir af Gordon og skoðar Adeyemi - Barca vill losna við De...
banner
   mið 26. júní 2024 15:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Freysi um landsliðið: Mjög feginn að vera ekki settur í þær aðstæður
Icelandair
Freyr Alexandersson starfaði áður hjá KSÍ.
Freyr Alexandersson starfaði áður hjá KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson var rekinn úr starfi landsliðsþjálfara í fyrra.
Arnar Þór Viðarsson var rekinn úr starfi landsliðsþjálfara í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Í fyrsta lagi vildi ég kannski ekki starfið. Mér fannst ég þurfa að taka starfið. Ekki það að ég væri tilneyddur í það. Mér fannst bara þannig að ef við ætluðum að halda sjó þá væri ég besti maðurinn í starfið eftir breytingar," sagði Freyr Alexandersson, þjálfari Kortrijk í Belgíu, er hann ræddi um íslenska landsliðið í útvarpsþættinum Fótbolti.net síðasta laugardag.

Freyr hafði verið orðaður við landsliðið þegar Arnar Þór Viðarsson var ráðinn árið 2020, en Freysi hafði starfað bæði sem þjálfari kvennalandsliðsins og aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins.

Hann segist núna vera mjög feginn að hafa ekki tekið starfið að sér. Það gekk illa hjá Arnari og var hann mjög óvinsæll landsliðsþjálfari. Utanaðkomandi aðstæður voru þó ekki að hjálpa honum og trufluðu mikið.

„Þegar þáverandi formaður tekur ákvörðun um að það sé betra að gera það á annan hátt, þá var ég ekki beint fúll yfir því. Ég hugsaði bara: 'Þeir ætla aðra leið, og það er bara fínt. Ég fer þá bara mína leið'."

„Ég er síðan að sjálfsögðu mjög feginn að ég var ekki settur í þær aðstæður sem Arnar Þór Viðarsson var settur í. Sagan mun vera Arnari hliðholl, við skulum hafa það á hreinu. Hann var settur í alveg hræðilegar aðstæður. Ég er ekki að segja þetta af því að ég og Arnar erum eitthvað bestu vinir. Við erum það ekki, bara kunningjar og félagar í gegnum bransann. Ég er bara að meina það að hann var settur í aðstæður sem enginn hefði getað ráðið við. Hann hefði getað gert margt betur en þetta voru hræðilegar aðstæður," sagði Freyr.

„Ég er mjög feginn. Það sem gekk á, leikendur í því eru manneskjur sem ég hef mjög sterk tengsl við. Ég hefði ekki viljað vera í þessum aðstæðum."

Freyr segist vera með þann draum að þjálfa á Englandi en hann vonast einnig til að stýra Íslandi í framtíðinni.

„Ég vona að ég komi heim einhvern tímann. Ég elska landsliðið og mér þykir rosalega vænt um það. Ég er drullufúll að við séum ekki á EM. Við eigum að vera þarna. Við eigum að setja okkur það markmið. Við eigum að gera betur og komu okkur á næsta mót. Þessir strákar eru fínir og hafa mikið fram að færa. Núna eru þeir búnir að læra inn á þetta. Grípið þetta og farið inn á næsta mót. Ég sakna þess mikið að við séum ekki þarna. Þetta skiptir mig miklu máli. Mér þykir rosalega vænt um íslensku landsliðin," sagði Freyr.

Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Frey í spilaranum hér fyrir neðan en hann telur liðið núna á fínni leið.
Útvarpsþátturinn - Freysi og kraftaverkið í Kortrijk
Athugasemdir
banner
banner
banner