Real Madrid vill Enzo og Huijsen - Liverpool, Arsenal og Man Utd hafa áhuga á Gibbs-White - Sane orðaður við Liverpool
   mið 26. október 2022 18:37
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Annað árið í röð sem Barcelona missir af sæti í 16-liða úrslitunum
Inter fer áfram með Bayern
Inter fer áfram með Bayern
Mynd: EPA
Porto ætlar sér í 16-liða úrslit
Porto ætlar sér í 16-liða úrslit
Mynd: EPA
Barcelona mun ekki spila í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á þessu tímabili en það varð ljóst er Inter lagði Viktoria Plzen, 4-0, í C-riðlinum í kvöld. Þetta er annað árið í röð sem Barcelona missir af sæti í 16-liða úrslitunum.

Plzen átti aldrei séns gegn sterku liði Inter. Ítalska liðið skapaði sér urmul af færum í fyrri hálfleiknum.

Þolinmæði þrautir vinnur allar. Fyrsta markið kom ekki fyrr en á 35. mínútu. Alessandro Bastoni fékk boltann vinstra megin á vellinum og kom með flotta fyrirgjöf inn í teiginn og mætti Henrikh Mkhitaryan á ferðinni og stangaði boltann í netið.

Stuttu síðar kom annað mark Inter. Núna var það Federico Dimarco sem kom með fyrirgjöf frá vinstri vængnum inn í teiginn og þar var Edin Dzeko klár í að pota boltanum inn.

Inter hélt áfram að keyra á vörn Plzen í þeim síðari og átti liðið meðal annars stangarskot áður en Dzeko gerði annað mark sitt eftir sendingu frá Lautaro Martinez. Romelu Lukaku gerði út um leikinn með fjórða markinu stuttu eftir að hafa komið inná sem varamaður.

Lokatölur 4-0 og Inter komið í 16-liða úrslit en Barcelona missir af sæti þar annað árið í röð. Barcelona fer í úrslitakeppni Evrópudeildarinnar.

Toppliðið í B-riðli. Club Brugge, hafði ekki fengið á sig mark í riðlakeppninni fram að leiknum gegn Porto í kvöld en flóðgáttirnar opnuðust í Belgíu. Porto vann 4-0 en Brugge hefði klárlega getað verið inn í þessum leik.

Mehdi Taremi skoraði eina mark fyrri hálfleiksins og leiddi því Porto, 1-0, þegar gengið var til búningsherbergja. Í þeim síðari fékk Brugge fullkomið tækifæri til að jafna er liðið sótti vítaspyrnu en Diogo Costa varði víti frá Hans Vanaken. Brugge fékk að taka vítið aftur þar sem Costa steig af línunni og var ákveðið að setja Noa Lang á punktinn í staðinn en hann klikkaði líka og átti það eftir að reynast dýrkeypt.

Porto bætti í og skoraði svo þrjú mörk til viðbótar. Evanilson gerði annað markið áður en Stephen Eustaquio bætti við þriðja og Taremi gerði svo út um leikinn þegar tuttugu mínútur voru eftir.

Brugge er á toppnum með 10 stig en Porto í öðru sæti með 9 stig. Atlético Madríd þarf að vinna Leverkusen í kvöld til að eiga möguleika á að komast áfram.

Úrslit og markaskorarar:

B-riðill:

Club Brugge 0 - 4 Porto
0-1 Mehdi Taremi ('33 )
0-2 Evanilson ('57 )
0-3 Stephen Eustaquio ('60 )
0-4 Mehdi Taremi ('70 )

C-riðill:

Inter 4 - 0 Plzen
1-0 Henrikh Mkhitaryan ('35 )
2-0 Edin Dzeko ('42 )
3-0 Edin Dzeko ('66 )
4-0 Romelu Lukaku ('87 )
Athugasemdir
banner
banner