KR-ingar voru ansi þunnskipaðir þegar kom að reynslumiklum leikmönnum á varamannabekk liðsins þegar það heimsótti Víking í Bestu deildinni á mánudag. Þrír leikmenn á bekknum voru fæddir árið 2006 og einn árið 2005.
Þeir Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Aron Kristófer Lárusson, Kjartan Henry Finnbogason, Pontus Lindgren og Stefan Alexander Ljubicic voru ekki með KR í leiknum og var Rúnar spurður út í þeirra fjarveru.
Þeir Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Aron Kristófer Lárusson, Kjartan Henry Finnbogason, Pontus Lindgren og Stefan Alexander Ljubicic voru ekki með KR í leiknum og var Rúnar spurður út í þeirra fjarveru.
„Ljubicic fór í aðgerð á hné, Arnór Sveinn er meiddur, Pontus hringdi í mig morgun og tilkynnti mér að hann væri orðinn veikur og ég heyrði það vel á honum - hann átti að byrja hér í dag. Aron Kristófer datt um sjálfan sig tvo daga í röð í síðustu viku á æfingu og ekki nokkur maður nálægt honum, hann datt svo illa á hnéð að liðband sem heldur utan um hnéskelina skaddaðist að einhverju leyti," sagði Rúnar og ræddi svo um Kjartan Henry eins og frægt er orðið. Hægt er að hlust á allt það sem Rúnar sagði um Kjartan í spilaranum hér neðst í fréttinni.
Aðeins búinn að bíða eftir Flóka frá því hann kom í KR
Kristján Flóki Finnbogason var í byrjunarliðinu en þurfti að fara af velli vegna meiðsla í hálfleik. Flóki hefur misst af nær öllu tímabilinu vegna meiðsla sem hann varð fyrir skömmu áður en flautað var til leiks í vor.
„Hann var bara stífur í ökklanum, er búinn að vera æfa með okkur á fullu í tvo mánuði en fyrst í síðustu umferð þar sem hann var tilbúinn að byrja inn á. Hann kom inn á í einstaka mínútur hér og þar en í síðustu umferð var hann klár og spilaði töluvert lengi. Í dag var hann orðinn stífur þegar leið á fyrri hálfleikinn og bað um að fá að koma út af, vildi ekki taka neina sénsa enda óþarfi að gera það á þessum tímapuntki."
Flóki skoraði fyrra mark KR í leiknum og skoraði líka gegn Breiðabliki í leiknum á undan. Er Rúnar að sjá í þessum leikjum hvað Flóki hefði getað gefið KR í allt sumar?
„Ég vissi það alveg fyrir fram. Hann var í gríðarlega góðu formi í apríl þegar hann fótbrotnar. Maður er aðeins búinn að bíða eftir Flóka frá því hann kom, fyrsta árið - 2019 þegar við unnum titilinn - var geggjað hjá honum. Síðan hefur hann ekki alveg verið þessi maður sem hefur verið að skora nægilega mikið, en hann er frábær liðsfélagi og frábær drengur, hann vinnur alla vinnuna sem þú vilt að hann geri. Það vantaði bara þessi einstaka mörk sem maður hefðu viljað sjá fara oftar í netið hjá honum," sagði Rúnar.
Athugasemdir