Marco Silva þjálfari Fulham var svekktur eftir tap á heimavelli gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Fulham var sterkara liðið stærsta hluta leiksins en tókst ekki að skora. Þess í stað gerði varnarmaðurinn Lisandro Martínez eina mark leiksins á 78. mínútu, með skoti utan vítateigs sem breytti um stefnu af varnarmanni.
„Við erum svekktir með þessi úrslit því við áttum meira skilið úr þessum leik. Man Utd skoraði með eina skotinu þeirra sem hæfði markrammann og það var heppnismark því boltinn breytti um stefnu af varnarmanni," sagði Silva að leikslokum.
„Við stjórnuðum leiknum á löngum köflum og fengum tvö eða þrjú góð marktækifæri en ég man ekki eftir einu hættulegu færi hjá Man Utd. Við vorum sterkara liðið í fyrri hálfleik en seinni hálfleikurinn var aðeins jafnari.
„Þeir vörðust vel eftir að hafa komist yfir með 10 leikmenn í vítateig og okkur tókst ekki að jafna. Við nýttum ekki færin sem við fengum nægilega vel og það er mikilvægt að nýta færin á þessu gæðastigi. Það er erfitt að sigra leiki í úrvalsdeildinni án þess að nýta færin sín.
„Þetta var ekki gott kvöld fyrir sóknarleikmennina okkar, vonandi gengur þeim betur í næsta leik."
Harry Wilson meiddist í tapinu en meiðslin ættu ekki að vera alvarleg.
Fulham er í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 33 stig eftir 23 umferðir - sjö stigum frá Evrópubaráttunni.
Athugasemdir