Gomes gríðarlega eftirsóttur - Liverpool og Man Utd með í kappinu um Guéhi - Liverpool missir af Gordon og skoðar Adeyemi - Barca vill losna við De...
   sun 29. september 2024 00:11
Brynjar Ingi Erluson
Maresca ráðlagði efnilegum leikmanni að fara frá félaginu
Mynd: EPA
Ítalski stjórinn Enzo Maresca ráðlagði enska miðjumanninum Carney Chukwuemeka að yfirgefa félagið fyrir gluggalok en þetta sagði hann í viðtali eftir 4-2 sigur Chelsea á Brighton í dag.

Chelsea festi kaup á Chukwuemeka frá Aston Villa fyrir tveimur árum en hann hefur aðeins komið við sögu í 28 leikjum á tíma sínum hjá félaginu.

Á þessari leiktíð hefur þessi tvítugi leikmaður aðeins fengið tækifærið í einum leik. Hann lék fjórtán mínútur í 5-0 sigri Chelsea á Barrow í enska deildabikarnum á dögunum, en var ekki í hópnum gegn Brighton í dag.

Áður en glugginn lokaði þá sagði Maresca að nokkrir leikmenn gætu yfirgefið félagið, en hann segist hafa ráðlagt Chukwuemeka að fara frá félaginu.

„Ég mun segja það nákvæmlega sama og ég hef sagt svo oft áður. Carney er mjög góður leikmaður, en miðað við fjölda leikmanna sem eru hér þá ákváðum við í byrjun tímabilsins að það væri líklega betra fyrir hann að fara annað, sanna sig og spila 30-35 leiki, heldur en að vera hér og spila færri leiki. Því miður varð ekkert úr því. Hann er leikmaður Chelsea og hann fékk nokkrar mínútur um daginn, en var ekki með í dag. Vonandi getum við gefið honum fleiri mínútur,“ sagði Maresca.

Barcelona og Milan voru bæði sögð á eftir honum en ekki náðist samkomulag um kaupverð. Þá hafði Liverpool verulegan áhuga á honum fyrir tveimur árum, en hann kaus frekar að semja við Lundúnaliðið.
Athugasemdir
banner
banner