mán 06. október 2008 08:00
Hörður Snævar Jónsson
Sumarið gert upp: Bjarki Freyr Guðmundsson (Þróttur)
Mynd: Fótbolti.net - Egill Tómasson
Mynd: Fótbolti.net - Egill Tómasson
Næstu daga munu leikmenn liða í Landsbankadeildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Bjarki Freyr Guðmundsson markvörður Þróttar mun í dag gera upp sumarið.



Þróttarar fóru inní þetta sumar bjartsýnir að vanda. Markmiðin voru mörg þó aðalmarkmiðið væri að sjálfsögðu að halda sæti okkar meðal þeirra bestu að ári. Þegar upp var staðið náðum við þeim flestum og þar á meðal að tryggja okkur sæti meðal þeirra bestu, góð tilfinning, sem alltof fáir Þróttarar höfðu kynnst.

Sumarið byrjaði ekki gæfulega en nokkrum dögum fyrir fyrsta leik meiddist fyrirliðinn okkar Sigmundur Kristjánsson. Í þessum fyrsta leik tókum við á móti sprækum Fjölnismönnum og sáum aldrei til sólar. Sem betur fer sýndi sá leikur ekki úr hverju okkar menn eru gerðir, heldur voru það leikirnir sem eftir fylgdu. Í Kópavogi sóttum við gott stig gegn Breiðablík, FH-ingar komu í heimsókn þar sem við náðum ótrúlegu 4-4 jafntefli með því að jafna á lokasekúndunum. Keflvíkingar komu á gríðarlegri siglingu í laugardalinn en við þróttarar sýndum þeim hvar Davíð keypti ölið. Miklvægir sigrar gegn HK og Fylki þar sem Michael Jackson skoraði í algjörum thriller fylgdu svo í kjölfarið.

Í seinni umferðinni var niðurlægingin í fyrsta leik sumarsins enn í fersku minn svo okkur hungraði í að sýna okkar rétta andlit gegn Fjölnismönnum. Í þeim leik uppskárum við einhvern magnaðasta karektersigur sem undirritaður hefur tekið þátt í. 4-3 sigur þar sem við náðum að jafna einum færri og loks skora sigurmarkið á síðustu andartökum leiksins. Sigmundur (hr. Karekterslaus) skoraði á sjálfsögðu þetta glæsilega sigurmark. Eftir þann sæta sigur var gengi okkar misjafnt, jafnteflin fullmörg en í minningunni stendur 4-1 sigur okkar á lánlausum Skagamönnum upp úr.

Þegar tveir leikir voru eftir af tímabilinu höfðum við tryggt okkur sæti í deildinni að ári, markmið okkar var í höfn og visst spennufall ríkti í Laugardalnum. Því miður náðum við okkur ekki á strik eftir leik okkar gegn Val þar sem vörnin var álíka brothætt og plexígler og síðustu leikirnir fara sennilega ekki í sögubækurnar. Liðið sýndi mikinn karakter í sumar og liðsandinn var og er hreinlega frábær, spekingarnir töluðu um karakterleysi meðal okkar í síðustu leikjunum en ég mun seint skrifa undir að karakterleysi hrái leikmenn Þróttar. Við erum ákveðnir í að koma vel undirbúnir til leiks í maí og svo ég noti samlíkingu Björn Hlyns, leikara og hreinræktaðs Köttara þá er Þróttur hættur að vera fulli frændinn sem allir hafa gaman af en gerir ekkert af viti – hann er farinn í meðferð! Lifi Þróttur!

Sjá einnig:
Gunnleifur Gunnleifsson (HK)
Helgi Pétur Magnússon (ÍA)
Athugasemdir
banner