Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz til Bayerrn
   mán 21. október 2019 11:00
Magnús Már Einarsson
Kári æfir og spilar í Englandi og Hannes í Danmörku
Kári Árnason í leiknum gegn Frökkum á dögunum.
Kári Árnason í leiknum gegn Frökkum á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslensku landsliðsmennirnir Hannes Þór Halldórsson og Kári Árnason munu næstu vikurnar æfa með félagsliðum erlendis til að halda sér í formi fyrir landsleikina gegn Tyrklandi og Moldavíu í næsta mánuði. Hannes er á mála hjá Val og Kári hjá Víkingi R. en hjá þessum félögum er frí þessa dagana.

„Kári er að fara til Englands og æfir þar fram að ferðinni í Tyrklandi. Ég veit ekki hvort ég má segja hjá hvaða klúbbi hann er svo ég ætla ekki að gera það. Hann mun fá varaliðsleiki þar og það er frábært. Hannes fer til Danmerkur og æfir með liði í efstu deild þar," saðgi Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, í útvarpsþætti Fótbolta.net á laugardag.

„Þeir sýndu frumkvæði að þessu sjálfir. Það er langt síðan að við byrjuðum að skipuleggja þetta. Þetta kemur í gegnum þeirra tengslanet og þetta er frábær lausn. Þeir verða í góðu standi í nóvember."

Freyr segir að þetta sýni að menn eru tilbúnir að leggja allt í sölurnar fyrir landsliðið.

„Menn eru tilbúnir að gera allt fyrir íslenska landsliðið. Það er alveg sama hver það er í hópnum, menn eru tilbúnir að teygja sig ansi langt til að vera í sínu besta standi og framkalla sína bestu frammistöðu fyrir íslenska landsliðið. Hugarfarið er gríðarlega öflugt og gott og menn eru hungraðir í að komast á annað stórmót," sagði Freyr.
Athugasemdir
banner