Stórlið á eftir Huijsen - Salah áfram hjá Liverpool - Arsenal reynir við Williams
   mið 02. apríl 2025 23:15
Brynjar Ingi Erluson
Moyes segir að rangstöðumark hafi skilið liðin að - „Vorum kannski örlítið heppnir“
David Moyes
David Moyes
Mynd: EPA
David Moyes, stjóri Everton, var allt annað en sáttur með sigurmarkið sem Liverpool skoraði í 1-0 sigrinum á þeim bláu á Anfield í kvöld.

Diogo Jota skoraði eina markið eftir sendingu Luis Díaz í síðari hálfleiknum. Hann lék á tvo varnarmenn og skoraði, en Moyes fannst það ekki hafa átt að standa.

Segir hann að Luis Díaz hafi verið rangstæður þegar Jarrad Branthwaite reyndi að hreinsa boltann frá. Í kjölfarið fékk Díaz síðan boltann og lagði upp á Jota.

„Mér fannst við mun nær þeim í kvöld en frá því ég kom aftur til félagsins. Við gáfum þeim tvo góða leiki og það var mjótt á mununum í kvöld. Rangstöðu mark sem þeir skora og það skilur liðin að.“

„Leikmennirnir sem eru fyrir aftan Jarrad hafa áhrif á leikinn þegar hann er að hreinsa. Það er auðvelt gefa þessa ákvörðun og ég bara hreinlega skil ekki af hverju það var ekki dæmd rangstaða,“
sagði Moyes.

Snemma í leiknum fékk James Tarkowski aðeins að líta gula spjaldið er hann vann boltann og fylgdi á eftir með því að hamra Alexis Mac Allister niður. Tarkowski var heppinn að sleppa með gult og viðurkennir Moyes að hans lið hafi haft heppnina með sér í því atviki.

„Fyrst fannst mér þetta vera geggjuð tækling í grannaslag, svona tækling sem við hefðum séð fyrir nokkrum árum. Ég skil að hlutirnir eru aðeins öðruvísi í nútímafótbolta og þegar menn fylgja eftir. Við vorum kannski örlítið heppnir, en ekki blanda því saman við markið því það var annað atvik sem vann leikinn fyrir Liverpool.“

„Liverpool var samt betra liðið og það er ástæðan fyrir því að þeir eru á toppnum, en við vorum seigir og mættum til leiks. Þetta er kannski smá högg í magann svona þegar úrslit leiksins eru ákveðin af einhverju sem var ekki verðskuldað,“
sagði Moyes enn fremur.
Athugasemdir
banner
banner
banner