Brasilíski vængmaðurinn Antony er að slá í gegn hjá spænska félaginu Real Betis eftir að hafa gengið í gegnum dimma dali hjá Manchester United. Hann er á láni og segist ekki viss hvað framtíðin ber í skauti sér.
Antony fann sig ekki alveg hjá United. Hann var keyptur fyrir 100 milljónir evra en aldrei náð að réttlæta verðmiðann.
Hann samþykkti að fara til Real Betis á láni í janúarglugganum og sér hann alls ekki eftir því. Antony er gríðarlega mikilvægur í sóknarleik Betis og hefur komið að fjölda marka.
„Ég er ótrúlega ánægður hér en það er of snemmt að taka ákvörðun. Ég er búinn að finna sjálfan mig og það var eitthvað sem ég þurfti. Ég þurfti að vera ánægður og að fjölskyldan væri ánægð.“
„Með hverjum deginum sem líður sé ég að þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið. Ég nýt borgarinnar og félagsins á hverjum einasta dagi og Seville svipar mjög til Brasilíu. Sólin, maturinn og allt. Fólkið er mjög hlýtt og ég er ánægður sem er það mikilvægasta fyrir okkur Brasilíumenn,“ sagði Antony við DAZN.
Isco, liðsfélagi hans hjá Betis, er meðal þeirra sem hafa óskað eftir því að halda honum og vildi hann ganga svo langt að hefja söfnun til þess að kaupa hann frá United. Ekki er útilokað að Betis reyni að fá að halda honum áfram á láni á næsta tímabili.
Athugasemdir