Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, segist hafa vitað það fyrir fram að leikurinn gegn Everton yrði erfiður en var afar ánægður með að liðið hafi landað sigri og haldið hreinu.
Diogo Jota skoraði eina markið eftir sendingu Luis Díaz í síðari hálfleiknum en Everton lét Liverpool svo sannarlega hafa fyrir hlutunum.
„Þeir gerðu okkur erfitt fyrir. Þeir eru með sérstakan leikstíl og maður verður að vera tilbúinn í allt, en fyrri hálfleikurinn var ekki okkar besti.“
„Jota skoraði geggjað mark og við héldum hreinu. Þannig á heildina litið var þetta fínt.“
Hann segir að liðið hafi ekki horft á mörg myndbönd úr fyrri leiknum sem fór fram á Goodison Park og allir hafi vitað að þetta yrði ekki auðvelt verkefni.
„Við horfðum ekki á margar klippur úr þeim leik. Við vissum alltaf að þessi leikur yrði erfiður og þeir voru mjög beinskeyttir og geta refsað þér í skyndisóknum. Við héldum okkur inn í leiknum og verðskulduðum þrjú stig.“
Hann vildi lítið tjá sig um tæklingu James Tarkowski á Alexis Mac Allister í byrjun leiks en Englendingurinn fékk aðeins gult spjald fyrir. Liverpool-menn kölluðu eftir rauðu en VAR hafnaði því og var sátt við niðurstöðuna.
„Það er eins og það er. Dómarinn og VAR taka ákvarðanir og við veðrum bara að sætta okkur við þær.“
Liverpool er með tólf stiga forystu á toppnum þegar átta leikir eru eftir og titillinn í augsýn.
„Allir vilja vera í okkar stöðu. Við verðum að halda áfram á sömu braut og halda sama hugarfari og við höfum verið að gera allt tímabilið. Við eigum erfiðan leik í Lundúnum á sunnudag,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir