Skagamaðurinn Björn Bergmann Sigurðarson skrifaði í morgun undir þriggja ára samning við norska félagið Lilleström. Björn Bergmann er aðeins 17 ára gamall en hefur þrátt fyrir það leikið tvær leiktíðir í Landsbankadeildinni og þykir eitt af mestu efnum okkar Íslendinga.
Björn Bergmann verður 18 ára gamall í febrúar og stórlið eins og Manchester United og Liverpool hafa fylgst með honum undanfarin ár.
Hann er af mikilli fótboltafjölskyldu því hálfbræður hans eru þeir Jóhannes Karl, Bjarni og Þórður Guðjónssynir en allir eiga þeir sömu móður.
Hann er annar Íslendingurinn í röðum Lilleström því fyrir er þar Viktor Bjarki Arnarsson sem lék á láni hjá KR í sumar en er nú farinn út.