Þessir eru á óskalista Man Utd - Tilboði Arsenal í Calafiori hafnað - Barcelona vill Olmo
   þri 02. júlí 2024 12:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bandaríkjamenn áhyggjufullir og pirraðir eftir ömurlegt mót
Reiðir út í dómarann en þurfa að fara í naflaskoðun
Pulisic í leik með bandaríska landsliðinu.
Pulisic í leik með bandaríska landsliðinu.
Mynd: EPA
Gregg Berhalter, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna.
Gregg Berhalter, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna.
Mynd: EPA
Bandaríska liðið er úr leik á Copa America.
Bandaríska liðið er úr leik á Copa America.
Mynd: EPA
Það er ekki mikil gleði í Bandaríkjunum með það að bandaríska landsliðið sé úr leik á Copa America. Vonbrigðin eru allsríkjandi eftir tap liðsins gegn Úrúgvæ síðastliðna nótt en frammistaða liðsins á mótinu var ekki góð. Liðið var í riðli með Úrúgvæ, Panama og Bólivíu.

Gregg Berhalter, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna, er afskaplega óvinsæll og er mikið kallað eftir því að hann verði látinn fara.

Christian Pulisic, stærsta stjarna bandaríska liðsins, gagnrýndi dómgæsluna harkalega eftir leikinn en eftir lokaflautið þá sýndi hann athyglisverða hegðun er hann virtist segja dómarateyminu að fagna með úrúgvæska liðinu. Dómarinn, sem kom frá Perú, neitaði í kjölfarið að taka í höndina á Pulisic.

Það voru aðallega eitt vafaatriði sem Bandaríkjamenn voru að pirra sig á. Mathías Olivera virtist vera rangstæður þegar hann skoraði eina mark leiksins en það fékk að standa. Svo fannst þeim dómarinn bara taka ýmsar skrítnar ákvarðanir í leiknum.

„Ég sá hluti í dag sem ég hef aldrei séð áður, sem ég trúi eiginlega ekki," sagði Pulisic. „En það er ekki ástæðan fyrir því að við töpuðum, dómgæslan er ekki ástæðan fyrir því að við erum úr leik. En ég skil ekki ákvarðanirnar og hann útskýrir ekki neitt. Hann gerði hluti sem ég get ekki samþykkt."

„Dómarinn hafði greinilega ekki hugmynd um það sem hann var að gera," sagði bakvörðurinn Antonee Robinson.

Halda HM 2026
En í Bandaríkjunum snýr reiðin ekki aðallega að dómgæslunni, heldur frammistöðunni og þjálfaranum. Berhalter sást gefa merki um það hver staðan var í hinum leiknum rétt áður en Úrúgvæ skoraði. Staðan var þá jöfn og Bandaríkin á leiðinni áfram, en svo fékk bandaríska liðið á sig mark. Það var eins og Berhalter vildi bara halda stöðunni og treysta á úrslitin í hinum leiknum.

Bandaríkin munu halda HM 2026 en liðið tók skref til baka í sumar. Það er svo sannarlega áhyggjuefni. Bandaríska knattspyrnusambandið segist ætla að fara í naflaskoðun eftir þetta mót.

„Vinnið bara fjandans leikinn. Hverjum er ekki sama hvað hin liðin gera? Sigurvegarar sjá um það sem þeir stjórna og eru ekki að hugsa um aðra," sagði Taylor Twellman, fyrrum sóknarmaður bandaríska landsliðsins, eftir leikinn í gær. Pirraður eins og aðrir stuðningsmenn Bandaríkjanna.



Athugasemdir
banner
banner