Þessir eru á óskalista Man Utd - Tilboði Arsenal í Calafiori hafnað - Barcelona vill Olmo
   þri 02. júlí 2024 10:30
Elvar Geir Magnússon
Terry segir BBC til skammar - 'Misstiano Penaldo'
Ronaldo grét eftir að hafa klúðrað vítaspyrnu.
Ronaldo grét eftir að hafa klúðrað vítaspyrnu.
Mynd: Getty Images
John Terry fyrrum landsliðsfyrirliði Englands segir að BBC, breska ríkissjónvarpið, hafi orðið sér til skammar í útsendingu frá leik Portúgals og Slóveníu í gær.

Hann segir stöðina hafa sýnt Cristiano Ronaldo lítilsvirðingu með því að setja upp borða sem á stóð 'Misstiano Penaldo' meðan vítaspyrnan sem portúgalska stórstjarnan klúðraði var endursýnd.

Ronaldo hefur gengið bölvanlega upp við mark andstæðingana á Evrópumótinu. Hann klúðraði vítaspyrnu í framlengingu gegn Slóvenum og brast í grát. Hann náði vopnum sínum fyrir vítakeppnina og skoraði þar í 3-0 sigri. Markvörðurinn Diogo Costa varði allar þrjár spyrnur Slóvena.

Terry þekkir tilfinninguna að klúðra víti í stórleik en hann gerði það með Chelsea í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2008.

„BBC, þetta er til skammar," skrifaði Terry á samfélagsmiðlum en fleiri taka undir þetta og segja vinnubrögð BBC ófagleg.
Athugasemdir
banner