Íslenska karlalandsliðið mætir Skotlandi og Norður-Írum í vináttuleikjum ytra í júní. Í janúar var leikurinn gegn Skotum í Glasgow tilkynntur og í dag var staðfest að Ísland mætir Norður-Írum í Belfast.
Um tvö lönd á Bretlandseyjum er að ræða en það vakti athygli fréttaritara að hvorugt þeirra er Írland sem er með Heimi Hallgrímsson sem landsliðsþjálfara. Fótbolti.net ræddi við Jörund Áka Sveinsson sem er yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ.
Um tvö lönd á Bretlandseyjum er að ræða en það vakti athygli fréttaritara að hvorugt þeirra er Írland sem er með Heimi Hallgrímsson sem landsliðsþjálfara. Fótbolti.net ræddi við Jörund Áka Sveinsson sem er yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ.
Umboðsmenn sem tengja samböndin saman
„Það kom aldrei inn á borðið að við spiluðum við Írland í júní. Þessir tveir möguleikar komu bara upp og við erum búnir að vinna í þeim. Það kemur vonandi tækifæri til að spila við Írland og Heimi síðar," segir Jörundur.
„Aðdragandinn að þessu er sá að það byrjar samtal og vangaveltur á milli sambandanna, tekið áfram í samninga um leikdaga og hvað henti best. Þetta er frekar einfalt í grunninn. Það eru umboðsmenn sem koma að þessu með einhverjum hætti líka, tengja samböndin saman. Þegar það eru drættir og annað þá eru umboðsmenn mættir og spyrjast fyrir hvort við séum að leita að leikjum. Svo fer boltinn að rúlla."
Geta ekki tekið sénsinn á að Laugardalsvöllur verði klár
Er spilað ytra af því að Laugardalsvöllur verður ekki orðinn tilbúinn í byrjun júní?
„Við erum að vonast til þess að kvennalandsliðið spili á Laugardalsvelli á móti Frökkum 3. júní í Þjóðadeildinni. Það er óvissa með hvort að völlurinn verði orðinn klár fyrir það, en ef ekki þá gætu stelpurnar spilað þann leik á gervigrasi, UEFA gefur leyfi á það."
„Við getum ekki verið að taka svona stóran séns, við þurfum að tilkynna okkar leiki inn til UEFA og er ekki eitthvað sem maður bara aflýsir ef vellirnir eru ekki klárir. Það eru alls konar reglugerðir og utanumhald sem þarf að hugsa út í þegar kemur að leikjum."
Ekki hægt að segja strax frá hvaða liði stelpurnar mæta í lokaleiknum fyrir EM
Jörundur segir vinnu í gangi varðandi undirbúningsleik kvennalandsliðsins fyrir EM í sumar. Hann er bjartsýnn að hægt verði að tilkynna seinna í þessari viku hver andstæðingur Íslands verður í lokaleik liðsins fyrir EM.
Athugasemdir