Inter mun keppa við Liverpool um Kimmich - Verbruggen á ratsjá Chelsea - Real Madrid fylgist með Wharton
   þri 04. mars 2025 14:33
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Hefur breyst frá síðustu veru á Íslandi - „Mjög gott tækifæri til að skrifa söguna"
Skrifaði undir samning við Breiðablik í gær.
Skrifaði undir samning við Breiðablik í gær.
Mynd: Breiðablik
Varð Íslandsmeistari með KR 2019 og Val 2018.
Varð Íslandsmeistari með KR 2019 og Val 2018.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hefur skorað 18 mörk í 63 leikjum í efstu deild á Íslandi.
Hefur skorað 18 mörk í 63 leikjum í efstu deild á Íslandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lék með Val tímabilið 2018 og sneri svo aftur í KR.
Lék með Val tímabilið 2018 og sneri svo aftur í KR.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Lék fyrst á Íslandi árið 2017 með KR.
Lék fyrst á Íslandi árið 2017 með KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stóð sig vel með Hvidövre í Danmörku áður en hann samdi í Portúgal síðasta sumar.
Stóð sig vel með Hvidövre í Danmörku áður en hann samdi í Portúgal síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Ísak Snær var frábær með Blikum í fyrra.
Ísak Snær var frábær með Blikum í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Val gegn Rosenborg í forkeppni Meistaradeildarinnar.
Í leik með Val gegn Rosenborg í forkeppni Meistaradeildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tobias Thomsen gekk í gær í raðir Breiðabliks en hann er kominn aftur til Íslands eftir fjögurra og hálfs árs fjarveru. Hann lék á Íslandi á árunum 2017-2020 og varð Íslandsmeistari með Val árið 2018 og KR 2019.

Thomsen er 32 ára framherji sem kemur frá Torreense sem leikur í næstefstu deild Portúgals. Hann ræddi við Fótbolta.net í dag.

Gerðist hratt í kringum helgina
„Út frá sögu minni hér á Íslandi vissi Breiðablik af mér, ég vissi af Breiðabliki og hvers konar félag það er. Það mikilvægasta fyrir mig er að Breiðablik er á virkilega samkeppnishæfum stað í dag, liðið vann auðvitað deildina í fyrra og er á leið í Evrópu. Um leið og umboðsmenn mínir sögðu mér frá áhuga Breiðabliks þá var ég mjög skýr á að ég myndi elska að það myndi ganga upp. Til allrar lukku var fjölskyldan til í þetta líka og vildi koma hingað. Þetta gerðist nokkuð hratt, fór fyrir alvöru af stað fyrir 3-4 dögum síðan og svo voru smáatriðin kláruð," segir Thomsen.

Þurfti að taka ákvörðun
Daninn er að koma frá Portúgal. Saknaði hann svona mikið íslenska veðursins?

„Þetta gerðist svo hratt að ég fékk ekki færi á að hugsa um það. Núna horfi ég út um gluggann á meðan þú spyrð mig að þessu... veðrið er eitt af því sem kannski heillar minnst, en þetta land hefur upp á svo mikið meira að bjóða. Ég elska fótboltann hér, keppnina hér og veit að deildin hefur þróast frá því ég var hérna síðast."

„Ég var í Portúgal og staðan var þannig að ég varð að taka ákvörðun um framhaldið. Þetta var annað hvort að vera áfram þar, spila út tímabilið og sjá svo til með framhaldið og hvað yrði í boði. Það hefur verið mjög mikill áhugi eftir að ég stóð mig vel í Superliga í Danmörku. Ég veit að Breiðablik er mjög gott félag, ég kom í gær og er búinn að hitta alla, sá æfingakúltúrinn, þjálfarana og hvað planið er með mig í liðinu. Það er komin meiri fagmennska í allt frá því ég var á Íslandi síðast. Ég var því mjög spenntur fyrir þessu tækifæri."

„Ég hef ekki áhyggjur af veðrinu, það truflar mig minnst."


Tók samtalið við kærustuna sem er frá Íslandi
Ræddir þú við fyrrum liðsfélaga á Íslandi áður en þú tókst ákvörðun um að semja við Breiðablik?

„Nei, í rauninni ekki. Ég hef fylgst vel með deildinni frá því að ég fór. Ég á ennþá marga marga vini hér, bæði í fótboltanum og fyrir utan hann, sem ég tala við. Ég ræddi mikið við fjölskylduna mína, kærastan mín er íslensk og við vissum að ég gæti náð árangri hér. Við þekkjum fótboltann hér og vitum hvað ég er að fara út í. Þetta snerist meira um praktísku hliðina, að láta þetta ganga upp. Ákvörðunin var mín, var mjög skýr að þetta var það sem ég vildi."

Hefur saknað þess að vinna titla
Hverjar eru þínar vonir um að verða byrjunarliðsmaður hjá Breiðabliki?

„Það er ekkert leyndarmál að ég vil verða aðalframherjinn í liðinu, vil geta skorað mörk og hjálpað liðinu að vinna sigra. Ég er kominn á þann aldur að ég bý yfir mikilli reynslu og við erum með marga unga leikmenn í hópnum. Ég er ekki að koma inn í Breiðablik til að bjarga neinu, liðið er á það góðum stað að það þarf í raun ekki á slíkum leikmanni að halda. Ég vil leggja mitt af mörkum og vonandi ýta öllum í rétta átt."

„Ég hef saknað þess að vinna titla og það er það sem þetta allt snýst um núna. Ég vona að ég geti skorað mörk fyrir liðið. Ég hef breyst aðeins frá því ég var hérna síðast, ég myndi segja að ég hafi verið óeigingjarn framherji og finnst ég vera orðinn eigingjarnari í dag. Ég er sömuleiðis kannski aðeins „latari" en á sama tíma klókari í mínum leik. Mig langar að vera aðalframherjinn, hefja pressuna á andstæðinginn, tengja við mjög skapandi og hæfileikaríka liðsfélaga mína og svo vonandi eiga síðustu snertinguna áður en boltinn fer í netið."


Ætlar ekki að bera sig saman við Ísak
Ísak Snær Þorvaldsson átti stóran þátt í því að Breiðablik varð Íslandsmeistari í fyrra, nýtti skrokk sinn vel í að krækja í mikilvægar vítaspyrnur og skoraði mikilvæg mörk, sérstaklega seinni hlutann. Hann var á láni frá Rosenborg. Alls skoraði Ísak níu mörk og lagði upp eitt í Bestu deildinni í fyrra.

Thomsen var spurður hvort að stuðningsmenn Breiðabliks mættu búast við svipuðu framlagi þegar kæmi að mörkum.

„Ég veit hversu mikilvægur Ísak var liðinu í fyrra, ég mun aldrei bera mig saman við neinn. Ég er ekki sú týpa sem skorar fallegu mörkin, ég er á réttum stað á réttum tíma, það er það sem ég reyni að gera. Ég get ekki lofað neinum neinu nema því að ég mun gera mitt allra besta og ég mun vera ég sjálfur. Ég mun taka ábyrgð bæði á vellinum og utan hans. Vonandi er það nóg fyrir alla."

„Ég er minn helsti gagnrýnandi. Ég veit að Ísak var mjög góður og hef rætt við fólk í kringum félagið um hann. Ég vil vera hluti af leiknum sjálfum og svo binda endahnútinn á sóknir. Ég get líka lagt hart að mér þegar við erum ekki með boltann. Ég held að ég sé öðruvísi leikmaður en Ísak."


Ber tilfinningar til Vals og KR
Fylgistu ennþá með KR og Val frá tíma þínum þar?

„Ég ber tilfinningar til allra félaga sem ég hef verið hjá, því á bakvið hvert lið er mikið af góðu fólki, gott fólk hjá félaginu. Það er kannski ekki þannig að ég tala daglega við fólk hjá Val eða KR en ég hef fylgst með ferlunum hjá mönnum og finn fyrir tengingu við bæði Val og KR. En þegar ég mæti þeim þá vil ég klárlega vinna, það er engin miskunn. Eftir leik getum við svo hlegið saman."

„Það eru ekki svo margir leikmenn ennþá hjá KR sem voru þegar ég var þar. Þar eru margir ungir leikmenn og þjálfarateymið er breytt. Þegar þú vinnur bikar einhvers staðar þá er einhver tenging við það félag. Ég vona að ég nái að mynda slíkt samband við Breiðablik."

„Ég hef haldið sambandi við Pablo Punyed, hann er núna í Víkingi en við lékum saman hjá KR. Ég ræði stundum við Patrcik Pedersen og hef haldið sambandi við Rasmus Christiansen. Ég myndaði líka góð tengsl við Leif Andra sem er hjá HK."

„Ég á marga vini á Íslandi og það spilar inn í, ég veit hvað ég er að fara út í, veit að ég get aðlagast, við erum með heimili og allt hér stenst mínar væntingar og óskir. Ég get einbeitt mér að fótboltanum og allir eru glaðir."


Möguleikinn í Evrópu heillandi
Árangur íslensku liðanna í Evrópu síðustu tvö tímabil, er það eitthvað sem heillar þig?

„Klárlega. Ég man eftir Evrópuleikjunum með bæði KR og Val, það eru leikirnir sem þú horfir til baka til þegar ferillinn klárast og þegar þú þarft að taka ákvörðun varðandi ferilinn þinn. Þetta var stór ákvörðun og ég elska pressuna sem fylgir því að ætla sér að vinna titil. Breiðablik vann deildina í fyrra og ætlar sér að gera það aftur, ég veit að það verður erfitt, en ég held að allur íþróttapakkinn varðandi þetta félag er svo áhugaverður og það kveikir í mér. Mér finnst vera mjög gott tækifæri til að skrifa söguna hér á Íslandi með möguleikana í Evrópu. Mér finnst að aðaláherslan ætti að vera á því."

„Ég hef rætt við þjálfarana um að markmiðið okkar ætti að vera að spila 48 leiki það sem eftir er af árinu, það myndi þýða að við kæmumst í deildarkeppni í Evrópu. Það sjónarhorn á þetta allt saman er mjög spennandi."


Andrúmsloftið í kringum íslenska boltann orðið betra
Hvað er það sem heillar þig mest við að koma til Íslands?

„Ég get ekki sagt bara eitthvað eitt. Ég veit að áhuginn á fótboltanum hefur bara orðið meiri frá því að ég fór héðan. Ég sá úrslitaleikinn í haust milli Breiðabliks og Víkings. Allt andrúmsloftið í kringum fótboltann er orðið mun betra og líka gæðin sjálf. Ég held að landið þurfti á þessu að halda og deildin hafi þurft á þessu skrefi að halda því þetta hefur búið til mikinn áhuga."

„Ég hef rætt við vini mína í Danmörku og allir vita hvað er að gerast í íslensku deildinni. Önnur lönd hafa í dag meiri áhuga á því sem er að gerast á Íslandi."

„Það sem heillar mig mest er íþróttahliðin, ég ætla að vinna deildina aftur, spila í Evrópu og vera mikilvægur leikmaður í liðinu. Það er aðalmarkmiðið."

„Að vera hjá mjög heillandi félagi sem er á leið í rétta átt er mér mjög mikilvægt. Ég er á þeim stað á ferlinum að ég vil gefa af mér til annarra leikmanna, yngri leikmanna. Ég á fjölskyldu og vini hér á Íslandi og allur þessi pakki saman er mjög heillandi,"
segir Tobias Thomsen.
Athugasemdir
banner
banner