Trent efstur á blaði Real - Newcastle vill Mbeumo - Arsenal hefur áhuga á Kudus
   lau 04. ágúst 2018 10:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Álitið á Hamren í Svíþjóð ekki gott - „Meira liðið hans Zlatan"
Icelandair
Hamren treysti mikið á Zlatan.
Hamren treysti mikið á Zlatan.
Mynd: Getty Images
Erik Hamren er í viðræðum við KSÍ um að verða næsti landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta.

Fótbolti.net greindi frá því á fimmtudag að samkvæmt heimildum væru viðræður KSÍ og Hamren vel á veg komnar og hann líklegastur sem næsti landsliðsþjálfari Íslands.

„Við höfum rætt við Erik Hamren. Við höfum ekki bara rætt við hann heldur fleiri," segir Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í samtali við Ingva Þór Sæmundsson, blaðamann Fréttablaðsins í gær.

Hamren er 61 árs gamall og hefur lengi verið í þjálfarabransanum. Hann vann sænska bikarinn í þrígang, tvisvar með AIK og einu sinni með Örgryte. Hann vann tvo Noregsmeistaratitla með Rosenborg, 2009 og 2010, og gerði Álaborg að meisturum í Danmörku 2008.

Hamren stýrði sænska landsliðinu 2009-2016 og kom liðinu á Evrópumótin 2012 og 2016. Hann hefur ekki þjálfað síðan hann hætti með Svíþjóð 2016.

Fótbolti.net ákvað að spyrja sænska blaðamanninn Martin Petersson, sem starfar fyrir Fotbollskanalen út í Hamren, en afar skiptar skoðanir eru á þessum fyrrum landsliðsþjálfara Svíþjóðar.

„Álit Svía á Hamren er ekki gott. Hamren hefur náð miklum árangri á sínum ferli og þegar hann tók við sænska landsliðinu kunni fólk að meta hugmyndir hans. Fólk vildi eitthvað nýtt eftir, það sem flestir myndu segja, leiðinlegan fótbolta undir stjórn Lars Lagerback," sagði Petersson við Fótbolta.net.

„Hamren sagðist dreyma um að komast á verðlaunapall á EM og HM, og hann vildi spila meiri sóknarbolta. Hann vildi reyna að sigra stóru liðin með því að spila eins og stóru liðin. Það virkaði ekki vel. Hann kom Svíþjóð á EM 2012 og 2016 en liðið komst ekki langt á þessum mótum."

Hamren gaf Zlatan Ibrahimovic frumkvæði og lenti á endanum á vegg með sænska liðið.

„Hann sannfærði Zlatan um að byrja að spila aftur fyrir sænska landsliðið og treysti mikið á Zlatan. Hann gaf Zlatan gríðarstóra ábyrgð í liðinu. Stundum segir fólk í Svíþjóð að þetta hafi meira verið liðið hans Zlatan en liðið hans Hamren."

„Þegar hann hafði verið um nokkra hríð í starfi þá fór hann að eiga í vandamálum með fjölmiðla. Það virtist skipta hann miklu máli hvað fjölmiðlar skrifuðu og á endanum var sambandið á milli Hamren og fjölmiðla orðið erfitt."

„Ég tel að hann lært mikið á þessum árum og þessari stöðu sem hann kom sér í. Í enda dagsins mun fólk ekki minnast hans sem frábærs landsliðsþjálfara, en hans verður heldur ekki minnst sem einhvers sem mistókst alveg hrapalega," sagði Petersson að lokum.



Athugasemdir
banner
banner
banner