Arsenal og Man Utd berjast um Sane - Zubimendi til Arsenal? - Murillo orðaður við risa félög - Liverpool vill fá Pepi
   sun 05. september 2021 19:06
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kallað „nauðgarar, nauðgarar" að landsliðshópnum á leikdegi
Icelandair
Eiður Smári og Arnar Þór, landsliðsþjálfarar.
Eiður Smári og Arnar Þór, landsliðsþjálfarar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, greindi frá því á fréttamannafundi að leikmenn landsliðsins hefðu verið kallaðir nauðgarar í göngutúrum fyrir leiki í undankeppni HM.

Ísland tapaði gegn Rúmeníu á fimmtudag og gerði í dag jafntefli við Norður-Makedóníu eftir að hafa lent 2-0 undir.

„Við þjálfararnir erum ekkert búnir að gleyma fyrstu 64 mínútunum. Við vorum ekki að fylla í rétt svæði, við vorum ekki að spila boltanum fram á við og vorum ekki að hitta á samherja. Við verðum að greina hvað það er, en hluti af því er örugglega spennustig," sagði Arnar.

„Ég og Eiður tökum það algjörlega á okkur ef spennustigið var ekki rétt."

„Til að setja hlutina í samhengi, þegar við erum að tala um spennustig. Þá langar mig að gefa ykkur eitt dæmi um hvað það er erfitt fyrir þessa stráka akkúrat núna að tengja og finna orkuna og þorið, og í raun að búa til stuðninginn fyrir liðið. Bara til að setja hlutina í samhengi, þá er íslenska karlalandsliðið í göngutúr á leikdegi á heimavelli í Reykjavík, og þeir þurfa að sitja undir því að fólk sé að kalla þá: 'Nauðgarar, nauðgarar'. Ungir drengir og fjölskyldumenn."

„Þetta er erfitt," sagði Arnar og játaði því að þetta hefði gerst í dag og fyrir leikinn gegn Rúmeníu.

„Ég er ekki að henda þessari frammistöðu á þetta. Ég er bara að segja að við verðum sem samfélag að byrja að vinna saman. Við erum ekki að vinna saman, við erum að öskra á hvort annað... við erum að reyna að stýra íslenska landsliðinu í fótbolta. Ég er bara að segja þetta sem hluti af þeirri stöðu sem 18-19 ára drengir þurfa að ganga í gegnum."

Það hefur verið mikil umræða síðustu daga í samfélaginu um ofbeldismál af hálfu landsliðsmanna. Engar ásakanir hafa verið opinberaðar um leikmenn í núverandi hóp.
Athugasemdir
banner
banner