
KSÍ hefur tilkynnt að samkomulag náðist við Ríkisútvarpið og Mjólkursamsöluna um markaðs- og sjónvarpsréttindi Mjólkurbikarsins.
Þetta samkomulag gildir til þriggja ára eða út keppnistímabilið 2027.
„Ánægja er á meðal allra samningsaðila með samstarfið síðustu ár – Mjólkurbikarinn hefur fest sig í sessi með öflugum og mikilvægum stuðningi MS og ekki síður með framúrskarandi umfjöllun um keppnina á RÚV, þar sem m.a. má sjá leiki í Mjólkurbikarnum í beinni útsendingu og opinni dagskrá," segir meðal annars í tilkynningu frá KSÍ.
„Þess má geta að Bikarkeppni meistaraflokks karla er 65 ára á þessu ári og fyrst var leikið í Bikarkeppni meistaraflokks kvenna árið 1981. Bikarkeppni KSÍ bar nafn Mjólkurbikarsins árin 1986 til 1996. Mjólkurbikarinn sneri aftur fyrir keppnistímabilið 2018 verður nú a.m.k. út árið 2027."
Fyrstu umferð Mjólkurbikars karla 2025 er þegar lokið og er önnur umferð í fullum gangi þessa dagana áður en 32-liða úrslitin hefjast 17. apríl - á sama tíma og Mjólkurbikar kvenna fer af stað í ár.
Athugasemdir