Bakvörðurinn Matty Cash svaraði spurningum eftir 3-1 tap Aston Villa á útivelli gegn PSG í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.
PSG yfirspilaði gestina frá Birmingham en staðan var aðeins 2-1 allt þar til í uppbótartíma, þegar Nuno Mendes innsiglaði 3-1 sigur til að gera seinni leikinn enn erfiðari fyrir Aston Villa.
„Þetta var erfitt kvöld. Við bjuggumst við erfiðum leik eftir að hafa horft á PSG yfirspila Liverpool í síðustu umferð en við vörðumst vel í kvöld. Við vorum óheppnir að fá þessi mörk á okkur. Seinni leikurinn á Villa Park verður öðruvísi leikur heldur en í kvöld," sagði Cash.
„Það er bara hálfleikur í þessu einvígi og við erum mjög sterkir á heimavelli. Við erum meira en færir um að skora tvö eða þrjú mörk. Við munum læra af þessu og halda áfram á okkar striki.
„Við þurfum samt að bera virðingu fyrir þeim því þetta er eitt sterkasta liðið í keppninni og það lið sem virðist vera sigurstranglegast um þessar mundir."
Aston Villa tekur á móti PSG á þriðjudaginn og þarf minnst tveggja marka sigur til að detta ekki úr leik í venjulegum leiktíma.
Athugasemdir