Höjlund kominn með verðmiða - Gibbs-White mun kosta sitt - Fer Saliba frítt eftir tvö ár?
   fim 10. apríl 2025 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Lewandowski fyrstur til að skora 40 mörk á tímabilinu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Pólska markavélin Robert Lewandowski skoraði fertugasta mark sitt á tímabilinu þegar Barcelona sigraði 4-0 gegn Borussia Dortmund í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Lewandowski setti tvennu í sigrinum og er kominn með 40 mörk í 45 leikjum í öllum keppnum, þar af hefur hann skorað 11 mörk í 11 Meistaradeildarleikjum.

Hann er fyrsti leikmaðurinn í fimm bestu deildum Evrópu til að ná þessum áfanga, en ef fleiri deildir eru taldar var sænski framherjinn Viktor Gyökeres á undan honum. Gyökeres er búinn að skora 44 mörk í 44 leikjum með Sporting á tímabilinu, auk þess að gefa 11 stoðsendingar. Portúgalska deildin er talin vera meðal tíu sterkustu deilda Evrópu en er nokkuð langt frá því að geta talist til fimm sterkustu deilda álfunnar.

Næstu menn, sem leika í fimm bestu deildum Evrópu, á eftir Lewandowski í markaskorun á tímabilinu eru Harry Kane (34), Mohamed Salah (32), Kylian Mbappé (32), Ousmane Dembélé (32), Erling Haaland (30).

Lewandowski er jafnframt fyrsti leikmaður í sögu Meistaradeildarinnar til að skora meira en 10 mörk fyrir þrjú mismunandi félagslið, FC Bayern, Borussia Dortmund og Barcelona.

Þar að auki hefur Lewandowski ekki skorað fleiri mörk gegn neinum andstæðingum heldur en Dortmund, eða 29 mörk í 28 leikjum.

Lewandowski er 36 ára gamall og með rúmt ár eftir af samningi sínum við Barcelona.
Athugasemdir