PSG hefur sigrað 26 af síðustu 28 leikjum sínum í öllum keppnum. Jafntefli gegn Reims í janúar og afar óverðskuldað tap á heimavelli gegn Liverpool í mars.
Það fóru tveir leikir fram í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld, þar sem Barcelona og PSG unnu heimaleiki sína gegn Borussia Dortmund og Aston Villa.
Barcelona fór létt með Dortmund þar sem Robert Lewandowski skoraði tvennu í 4-0 sigri, en staðan var 1-0 í hálfleik.
Raphinha potaði boltanum í netið í fyrri hálfleik eftir marktilraun Pau Cubarsí og lagði Raphinha svo næsta mark upp fyrir Lewandowski í upphafi síðari hálfleiks.
Fermín López lagði þriðja mark leiksins upp fyrir Lewandowski á 66. mínútu áður en Raphinha gaf aðra stoðsendingu, í þetta sinn fyrir ungstirnið Lamine Yamal sem innsiglaði sigurinn.
Börsungar voru talsvert sterkari aðilinn og hefðu getað skorað fleiri mörk. Lokatölur 4-0 og ólíklegt að Dortmund geti komið aftur til baka eftir þetta.
Í París voru heimamenn í PSG talsvert sterkari aðilinn en áttu í erfiðleikum með að skapa sér góð færi. Þeir lentu afar óvænt undir, þvert gegn gangi leiksins, þegar Morgan Rogers skoraði eftir skyndisókn á 35. mínútu.
Désiré Doué jafnaði metin skömmu síðar eftir magnað einstaklingsframtak, þar sem hann kom inn af vinstri kantinum og smurði boltann upp í fjærhornið. Staðan var 1-1 í leikhlé.
Yfirburðir PSG héldu áfram í síðari hálfleik og tvöfaldaði Khvicha Kvaratskhelia forystuna strax í upphafi eftir annað magnað einstaklingsframtak, þar sem hann sólaði Axel Disasi upp úr skónum áður en hann kláraði með bylmingsskoti úr þröngu færi, sem fór ofarlega í stöngina í nærhorninu og inn.
Heimamenn áttu þó áfram í miklum erfiðleikum með að skapa sér góð færi gegn gríðarlega skipulagðri vörn Aston Villa, sem fékk nokkur hálffæri en tókst ekki að jafna á ný.
Þegar allt virtist stefna í 2-1 niðurstöðu tókst bakverðinum sókndjarfa Nuno Mendes að skora frábært mark eftir enn eitt einstaklingsframtakið í stórkostlegu liði PSG. Mendes slapp í gegnum vörnina eftir laglega stungusendingu frá Ousmane Dembélé á 92. mínútu og gerði ótrúlega vel að leika á varnarmenn og Emiliano Martínez markvörð Aston Villa áður en hann kláraði í autt mark.
Warren Zaire-Emery átti marktilraun á lokasekúndum leiksins en boltinn fór rétt yfir markið. Lokatölur urðu því 3-1 sem eru sanngjörn úrslit. Aston Villa á ansi erfitt verkefni fyrir höndum sér á heimavelli næsta þriðjudag.
Barcelona 4 - 0 Dortmund
1-0 Raphinha ('25)
2-0 Robert Lewandowski ('48)
3-0 Robert Lewandowski ('66)
4-0 Lamine Yamal ('77)
PSG 3 - 1 Aston Villa
0-1 Morgan Rogers ('35)
1-1 Desire Doue ('39)
2-1 Khvicha Kvaratskhelia ('49)
3-1 Nuno Mendes ('92)
Athugasemdir