Heimild: Dr. Football
Gylfi Þór Sigurðsson er ekki í landsliðshópnum fyrir komandi leiki gegn Svartfjallalandi og Wales sem spilaðir verða eftir rúma viku. Hann ræddi við Hjörvar Hafliðason í Dr. Football og sagði frá því að um sameiginlega ákvörðun hans, þjálfarateymisins og KSÍ væri að ræða.
„Nei, því þetta er sameiginleg ákvörðun hjá mér, landsliðsþjálfurunum og KSÍ að ég hvíli þetta verkefni, fjölskylduástæður og aðrar ástæður sem spila inn í. Ég er bara sultuslakur," sagði Gylfi við Hjörvar sem hafði spurt hvort Gylfi væri brjálaður yfir landsliðsvalinu.
„Við tókum samtalið í síðustu viku og ákváðum þetta svo í sameiningu í gær," sagði Gylfi.
Hann var í landsliðshópnum í september og október en það vakti athygli að hann kom ekki við sögu í síðasta landsleik, gegn Tyrklandi á Laugardalsvelli í október.
Gylfi, sem er 35 ára miðjumaður, er markahæsti leikmaður í sögu landsliðsins, hefur skorað 27 mörk í 83 leikjum.
Athugasemdir