Katie Cousins var í gær kynnt sem nýr leikmaður Þróttar í Bestu deild kvenna. Katie er gríðarlega öflugur leikmaður og hefur spilað með Val síðustu ár en skipti hennar hafa vakið mikla athygli.
Fullyrt hefur verið að stjórn Vals hafi þótt hún of dýr en Fótbolti.net heyrði í Styrmi Þór Bragasyni, varaformanni fótboltadeildar Vals, og spurði hann út í málin.
Fullyrt hefur verið að stjórn Vals hafi þótt hún of dýr en Fótbolti.net heyrði í Styrmi Þór Bragasyni, varaformanni fótboltadeildar Vals, og spurði hann út í málin.
„Fyrsta hugsun hjá okkur var að endursemja við Katie enda hefur hún verið með gott samningstilboð frá okkur á borðinu síðan í maí. Við fengum hinsvegar þau skilaboð frá umboðsmanni hennar að hún vildi reyna fyrir sér í sterkari deild og það var okkar tilfinning að hana langaði ekkert sérstaklega mikið til þess að spila á Íslandi," segir Styrmir.
„Eðlilega fórum við að skoða aðra kosti og við höfum gert mjög vel í vetur. Til okkar hafa komið margar af efnilegustu stelpum landsins sem auðvitað þurfa sínar mínútur. Katie er frábær leikmaður og flottur karakter og óskum við henni alls hins besta hjá Þrótti."
Snýst ekki endilega um peninga
En þessi umræða um að Valsmönnum hafi þótt hún of dýr?
„Þetta snýst ekkert endilega um peninga nei. Við erum á markvissri vegferð með liðið með geggjaða þjálfara í brúnni og höfum bætt við okkur mjög spennandi leikmönnum í vetur," segir Styrmir. Hann segir mikla reynslu í hópnum í bland við efnilegar stelpur sem eru bæði að koma upp úr yngri flokkum félagsins sem og úr öðrum liðum.
„Við erum með Berglindi Rós, Natöshu, Elísu, Fanndísi og svo er Arna Sif að koma aftur. Þetta eru alvöru leiðtogar sem við erum auðvitað að treysta mikið á.“
Öll þrjú tímabilin á Íslandi hefur Katie verið einn allra besti leikmaður Bestu deildarinnar. Í öll þrjú skiptin var Katie valin í lið ársins hér á Fótbolti.net. Katie á að baki 58 leiki í Bestu deildinni með Þrótti og Val. Í þeim hefur hún skorað 13 mörk. Hún hefur einnig verið dugleg við að leggja upp mörk.
Athugasemdir