Chelsea býst við að landa Guehi - Risaverðmiði á Isak - Mikill áhugi á Mateta
banner
   fös 07. febrúar 2025 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Útskýrir fjarveru Áslaugar Mundu - Fylgst vel með Andreu
Tvær af miðjunni meiddar
Icelandair
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andrea Rán Hauksdóttir.
Andrea Rán Hauksdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðsins, gerði þrjár breytingar á hópi sínum fyrir fyrstu leikina í Þjóðadeildinni sem fram fara í þessum mánuði.

Guðný Árnadóttir kemur inn fyrir Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur en Guðný glímdi við meiðsli í síðasta verkefni. Þær Dagný Brynjarsdóttir og Andrea Rán Hauksdóttir koma þá inn fyrir þær Hildi Antonsdóttur og Selmu Sól Magnúsdóttur. Dagný er að snúa til baka í hópinn eftir barnseign og Andrea Rán er í fyrsta sinn í hópnum síðan haustið 2021.

„Selma er meidd og Hildur er meidd. Áslaug Munda er heldur ekki með núna," sagði Þorsteinn á fréttamannafundi í dag.

„Ég er ánægður með hópinn. Auðvitað var erfitt að velja hann, en þetta er niðurstaðan í dag. Það eru leikmenn tæpir núna og það gætu orðið fleiri breytingar. Það kemur í ljós í næstu viku."

Selma Sól verður frá í sex til átta vikur og Hildur verður frá í þrjár til fjórar vikur. Áslaug Munda kom aftur inn í hópinn rétt fyrir áramót en er ekki með núna. Hún hefur verið að glíma við höfuðmeiðsli í langan tíma en er ekki meidd.

„Ástæðan fyrir því að ég vel hana ekki er að hún hefur verið í fríi og er nýbyrjuð aftur að æfa. Hún er búin að vera heil frá því í lok september minnir mig. Hún er á góðu róli. Þetta er lengsta tímabilið í langan tíma þar sem hún hefur verið alveg heil. Hún tók sér gott frí um jólin og fór í góða reisu. Ég ákvað að velja hana ekki núna og sagði við hana að hún þyrfti að halda sér heilli og æfa vel, en þá verður hún vel inn í myndinni," sagði Þorsteinn.

Andrea Rán snýr aftur í hópinn
Andrea Rán er í hópnum í fyrsta sinn í mjög langan tíma en hún er í dag á mála hjá Tampa Bay Sun í Bandaríkjunum.

„Selma og Hildur eru meiddar og Andrea er búin að standa sig vel. Ég sá leik hjá henni á móti Washington Spirit um síðustu helgi. Ég hef verið í sambandi við Andreu í langan tíma og fylgist alltaf með henni. Ég veit hvað hún er að gera. Mér leist vel á það sem ég hef séð frá henni í síðustu leikjum. Ég hef trú á því að hún muni gera eitthvað gott fyrir okkur," sagði Þorsteinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner