Arne Slot, stjóri Liverpool, er hissa á því að Sean Dyche hafi verið látinn fara frá nágrönnunum í Everton en hann sagði frá þessu á blaðamannafundi í gær.
Everton ákvað að láta Dyche taka poka sinn eftir að liðið hafði aðeins unnið einn af síðustu ellefu leikjum.
Tilkynnt var um brottreksturinn aðeins þremur tímum fyrir leik liðsins gegn Peterborough í enska bikarnum en Everton var ekki lengi að finna eftirmann Dyche.
David Moyes er mættur aftur til félagsins, tæpum tólf árum eftir að hafa yfirgefið félagið.
„Í fyrsta lagi þá er það synd þegar stjóri er látinn fara. Þetta kom mér svolítið á óvart því hann hafði náð í nokkur góð úrslit,“ sagði Slot um kollega sinn.
„Hann [David Moyes] gerði vel hjá West Ham og það er gott að fá hann aftur, en það er alltaf sorglegt að sjá einhvern [Sean Dyche], sem mér fannst gera mjög vel, missa starfið,“ sagði hann enn fremur.
Athugasemdir