Egypski sóknarmaðurinn Omar Marmoush hefur samþykkt að ganga í raðir Englandsmeistara Manchester City en þetta segir Sky í Þýskalandi.
Man City hefur átt í viðræðum við Eintracht Frankfurt, félag Marmoush, síðustu daga en Frankfurt vill fá í kringum 67 milljónir punda fyrir Egyptann.
Enska félagið gæti lagt fram fyrsta formlega tilboð um helgina í þennan 25 ára gamla leikmann.
Marmoush hefur farið hamförum í Þýskalandi á leiktíðinni, skorað 15 mörk og gefið átta stoðsendingar.
Liverpool var sagt vera að skoða hann fyrir áramót þar sem hann væri góður arftaki fyrir Mohamed Salah sem er að renna út á samningi, en það gæti reynst dýrkeypt fyrir þá rauðu ef Salah endar á að yfirgefa félagið.
Sky segir að Marmoush hafi samþykkt að ganga í raðir Man City og sé meira en tilbúinn til að taka næsta skref ferilsins.
Marmoush á 35 A-landsleiki með Egyptalandi og skorað 6 mörk.
Athugasemdir