Everton er að vinna í því að ganga frá kaupum á Ganamanninum Ernest Nuamah, sem er á mála hjá Lyon í Frakklandi. Sky Sports greinir frá.
Félögin eru í viðræðum um þennan 21 árs gamla vængmann sem hefur komið við sögu í sextán leikjum á tímabilinu.
Undir lok sumars var Fulham nálægt því að ganga frá kaupum á honum. Búið var að ná samkomulagi og var Nuamah búinn að gangast undir fyrri hluta lækniskoðuninnar en mætti síðan ekki í seinni hlutann.
Leikmaðurinn var með tárin í augunum á flugvellinum í Lundúnum og sagðist hafa nánast verið þvingaður til þess að yfirgefa Lyon.
Everton hafði þá einnig áhuga á að fá hann og hefur nú ákveðið að gera aðra tilraun. Kaupverðið mun líklega vera nálægt því sem Fulham ætlaði að greiða síðasta sumar eða rúmar 20 milljónir punda.
Þetta yrðu fyrstu kaup David Moyes á tímabilinu en hann tók við keflinu af Sean Dyche í dag.
Athugasemdir