,,Frábær drengur að öllu leyti"
Einn besti fótboltamaður sem Age Hareide, nýr landsliðsþjálfari Íslands, hefur þjálfað er Ole Gunnar Solskjær.
Solskjær lék lengst af hjá Manchester United en Hareide þjálfaði hann hjá Molde áður en hann fór til United.
Solskjær lék lengst af hjá Manchester United en Hareide þjálfaði hann hjá Molde áður en hann fór til United.
Hareide ræddi aðeins um Solskjær í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolta.net á laugardag.
„Við seldum hann til Manchester United frá Molde árið 1996. Hann skoraði 31 mark í 42 leikjum fyrir okkur. Hann er frábær drengur að öllu leyti og ég kann svo vel við hann. Hann gaf sig allan í verkefnið," sagði Hareide og bætti við: „Ég veit alveg af hverju hann skoraði svona mikið af mörkum. Það var vegna þess að hann var að æfa á hverjum einasta degi, að skora mörk."
Solskjær var gríðarlega metnaðarfullur og æfði mikið aukalega.
„Hann var eftir á meðan aðrir voru farnir af æfingasvæðinu. Sir Alex Ferguson hringdi í mig þegar hann ætlaði að kaupa hann. Hann hafði hringt í mig áður varðandi norska leikmenn vegna þess að ég hafði spilað á Englandi. Hann spurði mig hvort að Solskjær gæti spilað í ensku úrvalsdeildinni og ég svaraði því játandi," sagði Hareide en hann sagði að Solskjær hefði verið með frábæra skottækni og hefði verið fljótur að aðlagast leiknum í Englandi því hann var með þessa stórkostlegu tækni. Það hjálpaði honum auðvitað líka að hann var mjög metnaðarfullur og lagði mikið á sig.
Er orðaður núna við Leicester
Solskjær hefur á undanförnum árum tólf árum verið stjóri sjálfur og gert góða hluti með Molde í Noregi. Hann hefur einnig stýrt Cardiff og þá var hann stjóri Man Utd frá 2018 til 2021. Hareide telur að Solskjær sé góður stjóri.
„Hann er klárlega góður stjóri og hann er góður í samskiptum við fólk. Ég veit að stjórar sem eru góðir í samskiptum við fólk, þeir munu alltaf ná árangri. Það er svo mikilvægt að hugsa vel um leikmennina, að tala við þá og ná þeim saman. Það er mikilvægt að þeir hugsi að liðið vinnur leiki, ekki einstaklingar," sagði Hareide en hægt er að hlusta á viðtalið við hann í heild sinni hér fyrir neðan.
Solskjær hefur upp á síðkastið verið orðaður við Leicester, sem féll úr ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.
Athugasemdir